Hækkaður í tign eftir hvatningu um kjarnavopn

Ramsan Kadírov.
Ramsan Kadírov. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur hækkað Ramsan Kadírov, leiðtoga Tsétséna, í tign innan rússneska hersins. Verður hann nú þriggja stjörnu hershöfðingi.

Frá þessu greindi Kadírov í myndskeyti til fylgjenda sinna í dag.

Stöðuhækkunin kemur í kjölfar harðra ummæla Kadírovs, sem um helgina gagnrýndi rússneska hershöfðingja fyrir að hafa misst úkraínsku borgina Líman úr greipum sér.

Þá kallaði hann einnig eftir beitingu kjarnavopna gegn Úkraínu.

Ekki allt sem sýnist

Athygli vakti á mánudag þegar Kadírov lýsti því yfir að synir hans þrír, 14, 15 og 16 ára að aldri, myndu brátt ferðast til Úkraínu til þess að berj­ast í fremstu víg­línu við hlið Rússa.

Áður hefur Kadírov sent frá sér myndskeið sem eiga að sýna hann nærri vígvellinum. Annað hefur þó komið í ljós við nánari skoðun og hann jafnvel reynst víðs fjarri átakasvæðum.

mbl.is