Norður-Kórea nú skotið sex eldflaugum á 14 dögum

Suður-Kórea svaraði fyrir sig fyrr í vikunni og skaut eldflaugum …
Suður-Kórea svaraði fyrir sig fyrr í vikunni og skaut eldflaugum í Japanshaf. AFP

Norður-Kórea skaut tveimur eldflaugum í Japanshaf snemma morguns fimmtudags að staðartíma. Eldflaugunum er skotið á sama tíma og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í New York í Bandaríkjunum til að ræða atvikið þegar Norður Kórea skaut flugskeyti yfir Japan á þriðjudaginn.

Norður-Kórea hefur nú skotið sex eldflaugum á minna en tveimur vikum en japanski og bandaríski herinn brugðust við eldflaugaskoti Norður-Kóreu yfir Japan á þriðjudaginn með sameiginlegum heræfingum.

Í gær skutu Suður-Kórea og Bandaríkin fjórum flugskeytum í Japanshaf til að svara fyrir sig og því ljóst að spenna er að byggjast upp á svæðinu.

„Við höfum aukið eftirlit og herinn viðheldur ýtrasta viðbúnaði í samráði við Bandaríkin,“ sagði í tilkynningu frá stjórnvöldum Suður-Kóreu.

mbl.is