Þrjátíu og fimm ára dönsk kona var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir dönskum dómstóli fyrir að fara til Sýrlands og halda þar á lofti málstað Ríkis íslams í landinu. Saksóknarinn í málinu sagði að eiginkonur væru lykilþátttakendur í Ríki íslams.
„Jafnvel þótt þú sért ekki í framlínu í baráttunni höldum við því fram að þú styðjir hryðjuverkasamtökin með því að versla fyrir þau í matvörubúðum, með því að sjá um börn þeirra eða með því að vera eiginkona,“ sagði Trine Schjodt saksóknari í dag.
Konan var sögð sek fyrir að hafa „farið og búið í al-Raqqa héraðinu og einnig í Deir al-Zour héraðinu í Sýrlandi, en bæði héruðin voru skilgreind sem átakasvæði á því tímabili sem hún var þar.
Konan er upphaflega frá vesturhluta Danmerkur. Hún sér gífurlega eftir gjörðum sínum sagði verjandi hennar Mette Gith Stage við fréttastofuna Ritzau.
„Síðustu ár hafa verið henni mjög erfið, fyrst í kalífadæminu, síðan í fangelsisbúðum og núna í fangelsi. Hún saknar barna sinna mjög mikið og getur ekki beðið eftir því að málinu ljúki svo hún geti lokað þessum kafla lífs síns og haldið áfram með börnunum.“
Í október á síðasta ári náðu Danir, með stuðningi Þjóðverja, þremur konum og fjórtán börnum frá Roj-fangelsisbúðunum í Sýrlandi, í norðausturhlutanum þar sem Kúrdar ráða ríkjum. Allar konurnar voru fangelsaðar við komuna til Danmerkur og hafa setið í fangelsi síðan. Réttarhaldið í dag er réttarhaldið yfir fyrstu konunni, en eftir á að dæma hinar tvær.