Segir Pútín hafa hótað sér

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP/Ukrainian Presidential Press Service

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi hótað honum flugskeytaárás er þeir töluðu saman í gegnum síma í aðdraganda stríðsins sem hófst í Úkraínu á síðasta ári.

Johnson, sem gegndi embætti forsætisráðherra á þeim tíma, segir símtalið hafa verið afar langt og óvenjulegt. Þegar það fór fram hafði mikil spenna verið að magnast upp við landamæri Úkraínu og grunaði marga að stríð væri í vændum þó svo að Rússar neituðu því.

Í umfjöllun BBC kemur fram að ummæli forsetans hafi fallið í kjölfar þess að Johnson varaði Pútín við því að stríð yrði „algjör hörmung“ og að Rússland myndi sæta hörðum refsiaðgerðum af hálfu Vesturlandanna. Þá myndi Atlantshafsbandalagið (NATO) senda fleiri hermenn að landamærum Rússlands. 

„Hann hótaði mér,“ sagði Johnson er hann rifjar upp símtalið. „Hann sagði: „Boris, ég vil ekki meiða þig en það tæki einungis mínútu með flugskeyti“ eða eitthvað í þá áttina.“

Johnson taldi þó ekki að forsetanum væri alvara með hótun sinni. „Hann var bara að spila með tilraunir mínar til að fá hann til að semja,“ segir hann.

mbl.is