Afleysingamaður dró sér milljarð

Höfuðstöðvar Sparebank 1 við Kongens Gate í Þrándheimi, byggingin er …
Höfuðstöðvar Sparebank 1 við Kongens Gate í Þrándheimi, byggingin er frá 1882 en bankinn var stofnaður árið 1823 og hét þá Trondhjems Sparebank. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jensens

Afleysingastarfsmaður í Sparebank 1 SMN í Þrándheimi í Noregi er grunaður um að hafa dregið sér tæpar 75 milljónir norskra króna í starfi sínu, upphæð sem jafnast á við rétt rúman milljarð íslenskra króna, og tapað þar af tveimur þriðju, 50 norskum milljónum, í fjárfestingar sem reyndust allt annað en ábatasamar.

„Áætlað tap er 50 milljónir króna. Upphæðin var notuð til fjárfestingar sem skilaði sér í tapi svo það eru peningar sem ekki verða endurheimtir,“ segir Ole Andreas Aftret, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Þrændalögum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Var maðurinn handtekinn 19. janúar eftir að upp komst um athæfi hans og hélt stjórn bankans neyðarfund sama dag. Hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og kvaðst sekur um brotið þegar dómari innti hann eftir afstöðu til sakarefnisins við gæsluvarðhaldsþinghaldið. Grunsemdir lögreglu snúa að hvoru tveggja, stórfelldum fjárdrætti og peningaþvætti.

Bjóst við að verða gripinn strax

Norska efnahagsbrotalögreglan Økokrim kom að rannsókn málsins og staðfesti Pål Lønseth, yfirmaður hennar, við NRK síðdegis í dag að peningarnir sem töpuðust hafi verið notaðir til fjárfestingar í þýskum sjóði.

Tekur hann fram að rannsókn málsins sé ekki lokið en fyrstu niðurstöður bendi til þess að 50 milljónir af 75 hafi farið forgörðum við fjárfestinguna. Lögregla undirbýr nú kröfu um framlengingu gæsluvarðhaldsins og byggir hana á því að líkur séu á að grunaði reyni að koma sér undan refsingu gangi hann laus.

Lögregla greinir frá því að grunaða hafi verið kleift að draga sér féð gegnum aðgang sinn að tölvukerfum bankans. Millifærði hann heildarupphæðina í smærri skömmtum á nokkra reikninga í öðrum norskum bönkum og bönkum erlendis. Hefur lögregla aflað sér gagna frá bönkunum.

„Hann bjóst við að verða gripinn daginn eftir fyrstu færsluna en þegar það gerðist ekki hélt hann bara áfram,“ segir Christian Wiig, verjandi afleysingamannsins, við NRK, skjólstæðingur hans hafi einfaldlega ætlað að athuga hvað gerðist ef hann tæki peninga bankans ófrjálsri hendi.

Innra eftirlit hafði samband um jólin

Hann hafi tekið til við fjárfestingarnar og þegar tapað fé. Þar með hafi hann lent í vítahring og dregið sér sífellt meira til að freista þess að vinna tapið upp með skynsamlegri fjárfestingum en fyrrgreindum afleiðingum.

Grunaði heldur því fram að hann hafi verið einn að verki en hann hefur gegnt afleysingastöðu við Sparebank 1 síðan árið 2020. Kveðst lögregla hafa náð 15 milljónum norskra króna af þýfinu til baka en einhverjar milljónir séu þó enn á vergangi.

„Bankinn hefur orðið fyrir barðinu á alvarlegu efnahagsbroti. Að auki hefur orðið hreinn trúnaðarbrestur þar sem grunaði hefur misnýtt sér aðgang að kerfum í eigin þágu auk þess að eiga við eftirlitstæki okkar,“ segir Rolf Jarle Brøske bankastjóri.

Bankinn er tryggður fyrir fjárdrætti en eigin ábyrgð hans í slíkum málum er fimm milljónir, jafnvirði 70 milljóna íslenskra króna. Viðskiptavinir bankans verða ekki fyrir neinum skakkaföllum vegna málsins eftir því sem stjórnin hefur gefið út.

Dró grunaði sér alla upphæðina á rétt rúmum mánuði en innra eftirlit bankans grunaði snemma í ferlinu að maðkur væri í mysunni og hafði samband við hann þegar milli jóla og nýárs. Var hann þá spurður nokkurra spurninga en hagaði svörum sínum þannig að hann ávann sér gálgafrest.

„Hann segir að bankinn hefði kannski átt að stöðva hann þá,“ segir Wiig verjandi að lokum.

NRK
NRKII (handtekinn og játar)
VG
E24

mbl.is