Tæpur helmingur Bandaríkjamanna gæti misst TikTok

Bandaríkjamenn vilja breytt eignarhald á TikTok en nánast hálf þjóðin …
Bandaríkjamenn vilja breytt eignarhald á TikTok en nánast hálf þjóðin notar miðilinn í hverjum mánuði. AFP/Mario Tama

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, segir að bandarískir notendur smáforritsins séu nú orðnir 150 milljónir, sem er nær helmingur þjóðarinnar. Bandarísk stjórnvöld hafa hótað að banna samfélagsmiðilinn.

Þetta er mikil hækkun frá mælingum TikTok frá árinu 2020 en þá notuðu 100 milljónir Bandaríkjamanna samfélagsmiðilinn í hverjum mánuði sem gerði hann nú þegar að einum vinsælasta samfélagsmiðli í landinu.

Chew mun bera vitni fyrir orku- og viðskiptanefnd bandaríska þingsins á fimmtudaginn næstkomandi. Við því er búist að hann komi til með að mæta fjölda ásakana um að appið sé í eign kommúnistaflokksins í Peking.

Hugmyndir um að banna miðilinn

Í seinustu viku var greint frá því að hugmyndir eru á lofti meðal bandarískra stjórnvalda um að banna samfélagsmiðilinn vegna meintra ítaka Kínverska kommúnistaflokksins. Talsmenn TikTok hafa nú einnig staðfest að Hvíta húsið hafi gefið fyrirtækinu úrslitakosti um að skilja við kínverska eigendur sína eða sæta banni í Bandaríkjunum.

„Í dag er ég rosalega spenntur að tilkynna að yfir 150 milljónir Bandaríkjamanna séu á TikTok. Næstum helmingurinn af Bandaríkjamönnum er að fara á TikTok til að tengjast, skapa, deila, læra eða bara til þess að skemmta sér,“ segir Chew í færslu á TikTok.

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, mun mæta fyrir bandaríska þingið …
Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, mun mæta fyrir bandaríska þingið á fimmtudaginn þar sem samfélagsmiðillinn er sagður vera undir stjórn Kína. AFP

„Sumir stjórnmálamenn hafa farið að tala um að banna TikTok. Nú gæti þetta tekið TikTok frá öllum ykkur hundrað og fimmtíu milljónum,“ segir Chew í færslunni og biður að lokum notendur appsins um að „láta mig vita í kommentakerfinu hvað þið viljið að kjörnir fulltrúar ykkar viti um það sem þið elskið við TikTok“.

Tryggja sérstaka meðhöndlun

Chew sagðist ætla að deila „öllu sem við erum að gera til að vernda Bandaríkjamenn með því að nota appið“ með þinginu og vísar einnig í tillögu sem kallast Project Texas, sem myndi tryggja sérstaka meðhöndlun fyrir gögn bandarískra notenda.

TikTok hefur þvertekið fyrir ásakanir um að hafa deilt gögnum með kínverskum embættismönnum og segir að fyrirtækið hafi unnið með bandarískum yfirvöldum í meira en tvö ár að því að bæta þjóðaröryggissjónarmið.

Tíminn sem bandarískir notendur verja á TikTok hefur farið fram úr þeim tíma sem þeir eyða á YouTube, Facebook, Instagram eða Twitter og fer að nálgast tímann sem varið er á streymisveitunni Netflix, samkvæmt rannsóknum Insider Intelligence.

Umræða hefur verið hér á landi um að banna opinberum starfsmönnum að nota miðilinn en víða í nágranna ríkjum hafa stjórnvöld bannað opinberum starfsmönnum að nota appið.

mbl.is