Kveikti í fyrrverandi kærustu sinni á torgi

Frá Lima í Perú. Margir landsmenn eru í áfalli eftir …
Frá Lima í Perú. Margir landsmenn eru í áfalli eftir árásina. AFP

Ung kona er látin eftir fimm kvalarfulla daga á sjúkrahúsi, eftir að fyrrverandi kærasti hennar lagði eld að henni og brenndi úti á torgi í Lima, höfuðborg Perú.

Katherine Gomez, sem var 18 ára, var færð á sjúkrahús á laugardag með brunasár á 60% líkama síns.

„Hún barðist fyrir lífi sínu, en því miður var skaðinn svo mikill að ómögulegt reyndist fyrir lækna að bjarga lífi hennar, Þeir hafa tjáð okkur að hún sé látin,“ segir kvennamálaráðherra landsins, Nancy Tolentino, í viðtali á perúsku útvarpsstöðinni RPP.

Jós yfir hana eldsneyti á torginu

Margir landsmenn eru í áfalli eftir árásina.

Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn 19 ára gamall Venesúelamaður, Sergio Tarache Parra að nafni, sem flúði eftir að hafa ausið eldsneyti yfir Gomez og kveikt í henni á torginu, sem er í miðri borginni.

Nokkrum dögum fyrr hafði Gomez ákveðið að binda enda á samband þeirra.

Ráðherrann gagnrýnir lögreglu landsins fyrir að gefa fyrst í gær út handtökuskipun á hendur árásarmanninum, eða fimm dögum eftir árásina sem varð konunni að bana.

mbl.is