Páfinn lagður inn vegna veikinda

Hér má sjá páfann áður en hann var fluttur á …
Hér má sjá páfann áður en hann var fluttur á sjúkrahús. AFP/Vincenzo Pinto

Frans páfi hefur verið lagður inn á sjúkrahús vegna öndunarfærasýkingar. Biskupar víðs vegar um Ítalíu biðja nú fyrir páfanum og skjótum bata hans.

Þessu greinir CNN frá.

Í tilkynningu Vatíkansins vegna veikindanna kemur fram að páfinn hafi átt bókaða tíma í hinar ýmsu heilsufarsskoðanir og hafi þess vegna lagt leið sína á sjúkrahúsið Policlinico A. Gemelli í Róm. Þá hafi hann kvartað yfir öndunarfæraóþægindum í einhverja daga.

Páfinn mun dvelja á sjúkrahúsinu í nokkra daga á meðan á meðferð vegna veikindanna stendur. Þá biðja biskupar Ítalíu fyrir bata páfans.

Biskupar víða um Ítalíu biðja nú fyrir páfanum.
Biskupar víða um Ítalíu biðja nú fyrir páfanum. AFP/Vincenzo Pinto

Í kjölfar innlagnarinnar hafa áhyggjur af heilsu páfans stigmagnast en Frans hefur þurft að nota göngustaf og hjólastól um nokkurt skeið vegna verkja í hné. Hann á einnig við ristilvandamál að stríða og þurfti að gangast undir aðgerð á lunga þar sem hluti annars lungans var skorinn burt, ungur að aldri. 

Áður hefur verið greint frá því að páfinn hafi þegar undirritað yfirlýsingu um afsögn úr embætti verði hann of veikur til þess að sinna skyldum sínum. 

mbl.is