Máli Trumps gegn NY Times vísað frá

Donald Trump og ritstjórn New York Times hafa tekist á …
Donald Trump og ritstjórn New York Times hafa tekist á í gegnum tíðina. Samsett mynd/AFP

Bandarískur dómari hefur vísað frá máli sem Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, höfðaði á hendur bandaríska dagblaðinu The New York Times. 

Trump sakaði blaðið og frænku sína, Mary Trump, um samsæri gegn sér til að komast yfir skattframtöl. Trump krafðist 100 milljóna dala í bætur, sem samsvarar um 13,6 milljörðum króna.

Málið var höfðað árið 2021 og varðar greinarflokk sem birtist í New York Times um fjármál Trumps, en blaðið hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir umfjöllunina. 

Dómarinn Robert Reed komst að þeirri niðurstöðu í gær að dómsmálið stæðist ekki stjórnarskrá, að því er segir í frétt BBC. 

Hann sagði að dómstólar hefðu lengi viðurkennt „rétt blaðamanna til að afla frétta á löglegan og hefðbundinn máta [...] þar sem þessar athafnir varða kjarnaatriði fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem njóta verndar,“ skrifaði Reed í úrskurði sínum.

Dómarinn, sem er Demókrati, dæmdi Trump til að greiða allan málskostnað dagblaðsins og þriggja blaðamanna, sem málshöfðunin beindist einnig gegn.

Talsmaður New York Times fagnaði niðurstöðunni. Hann sagði að þetta væri mikilvægt fordæmi þar sem það væri ítrekað að fjölmiðlar nytu verndar þegar kæmi að hefðbundinni fréttaöflun.

Lögmaður Trumps segir að málið verði skoðað og næstu skref íhuguð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert