Enn fjölgar mótframbjóðendum Trumps

Tim Scott sækist eftir tilnefningu Repúblikana.
Tim Scott sækist eftir tilnefningu Repúblikana. ALLISON JOYCE/Getty Images/AFP

Tim Scott, öldungadeildarþingmaður Repúblikana frá Suður-Karólínu, hefur tilkynnt framboð sitt í forvali Repúblikana um tilnefningu til forseta Bandaríkjanna. Hann er fimmti mótframbjóðandi Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Tim Scott gekk í öldungadeildina árið 2013 og var þá fyrsti svarti þingmaður öldungadeildarinnar frá Suðurríkjunum síðan árið 1881. Slagorðið hjá Tim Scott á sínum pólitíska ferli hefur hingað til vakið mikla von og vinsældir en það hefur verið „From Cotton to Congress“ eða lauslega þýtt „Frá bómull til þings“. Með því slagorði er hann að vitna í það að forfeður hans voru þrælar en núna er hann þingmaður.

Kannanir sína að Trump er með afgerandi forskot á keppinauta sína í forvalinu um tilnefningu Repúblikana, en hann mælist með 56,3% fylgi.  

Fylkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, mælist með um það bil 20%. Allir aðrir mælast með innan við 6% fylgi.

Vert er að taka fram að Ron DeSantis hefur ekki tilkynnt framboð þrátt fyrir sitt mikla fylgi. Þó herma heimildir Reuters að hann muni tilkynna framboð í þessari viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert