Macron segir mikilvægt að heimila dánaraðstoð

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir mikilvægt að heimila dánaraðstoð í Frakklandi.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir mikilvægt að heimila dánaraðstoð í Frakklandi. AFP/Kay Nietfeld

Franska þingið hóf í dag umræður um umdeilt frumvarp er varðar rétt fólks til að deyja. Frumvarpið er stutt af Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem hefur gert frumvarpið að sínu aðal máli á öðru kjörtímabili sínu. 

Gert er ráð fyrir að umræður um frumvarpið muni eiga sér stað á franska þinginu næsta árið. Verði það að lögum í lok viðræðna mun það færa Frakkland nær nágrannalöndum sínum sem sum hver leyfa nú þegar dánaraðstoð. 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1857325/

„Samræma sjálfræði einstaklingsins og samstöðu þjóðarinnar“

Macron hefur verið harður á því að dánaraðstoð skuli einungis vera heimil þeim sem glíma við ólæknandi sjúkdóma og þeim sem upplifa vítiskvalir. Þá sagði hann í mars að Frakkland þyrfti á lögunum að halda vegna aðstæðna sem fólk gæti ekki sætt sig við af mannúðlegum ástæðum. 

Markmiðið er „að samræma sjálfræði einstaklingsins og samstöðu þjóðarinnar“, sagði hann.

Í umræðum um frumvarpið hefur verið lögð áhersla á að skilgreina dánaraðstoð sem „lífslok“ eða „aðstoð við að deyja,“ frekar en „aðstoð við sjálfsvíg“ eða „líknardráp“.

Franska þingið tekur fyrir frumvarp um dánaraðstoð.
Franska þingið tekur fyrir frumvarp um dánaraðstoð. AFP/Julien De Rosa

Trúarleiðtogar mótfallnir frumvarpinu 

Flestir bandamenn Macrons styðja lögin en sumir þeirra hafa sagst ætla að ganga til liðs við íhaldssömu stjórnarandstöðuna til þess eins að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Ástæður þeirra sem það kjósa eru helst sagðar byggja á persónulegri reynslu. 

Þá hefur frumvarpið mætt harðri andstöðu bæði trúarleiðtoga og heilbrigðisstarfsmanna í landinu. 

Aðstoðin verður takmörkunum háð

Meðal álitaefna í tengslum við frumvarpið er hvort sjúklingar sem geta ekki lengur tjáð sig, og þannig greint frá vilja sínum, geti fengið dánaraðstoð. Það hefur þó verið gefið út að einungis fólki sem fætt er í Frakklandi, eða hafi búið þar um langa hríð, verði heimilt að óska eftir dánaraðstoð. 

Þá verða sjúklingar að vera orðnir eldri en 18 ára, geta tjáð óskir sínar á skýran hátt og þjást af ástandi sem takmarkar lífslíkur þeirra við skamman eða meðallangan tíma. Fólk með geðsjúkdóma eða taugahrörnunarsjúkdóma, eins og alzheimer, mun ekki geta fengið dánaraðstoð. 

Fram að þessu hafa Frakkar sem óska þess að fara þessa leið þurft að ferðast til nágrannalanda sinna, en meðal þeirra landa sem hafa heimilað dánaraðstoð eru Belgía, Holland, Spánn og Portúgal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert