Óttast 500-600 milljón króna tap

Laugavegur 4-6.
Laugavegur 4-6. mbl.is/Golli

„Ég hef vissar áhyggjur af því að menn hafi verið að grípa inn í atburðarás sem var í mjög góðum farvegi,“ segir Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, og vísar þar til kaupa nýs meirihluta á húsunum við Laugaveg 4 og 6 sem og Skólavörðustíg 1A.

„Fyrri meirihluti var að vinna að því að reyna að koma til móts við sjónarmið Ólafs F. [Magnússonar] með verndun húsanna. Ég held að það hafi verið óheppilegt að grípa inn í það ferli með því að taka málið af borði ráðherra og hafa ekki einu sinni fyrir því að skoða þá skýrslu sem við vorum búnir að láta vinna fyrir okkur um mismunandi möguleika á því hvernig bæri að gera þessi hús upp,“ segir Óskar og vísar þar til skýrslu sem unnin var af Minjavernd fyrir þáverandi borgarstjóra, Dag B. Eggertsson.

Að sögn Óskars kemur í þeirri skýrslu fram að kostnaðurinn við að gera upp húsin við Laugaveg 4 og 6 í upprunalegri mynd sé tæpar 400 milljónir króna. Ofan á þetta bætist að kaupvirði eignanna geti numið á bilinu 400-600 milljónum.

„Söluandvirði þessara húsa að viðgerð lokinni getur aldrei orðið meira en 400 milljónir. Þetta þýðir í reynd að fórnarkostnaður og hreint tap borgarinnar er 500-600 milljónir.“

Töldu verkefnið þess virði

„Þessi samningur er í fullu samræmi við þá tillögu sem samþykkt var á síðasta fundi borgarráðs,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs. Spurð um gagnrýni minnihlutans þess efnis að gera hefði átt innihald samningsins opinbert nú þegar í stað þess að bíða næsta borgarráðsfundar vísar Hanna Birna því á bug og bendir á að alvanalegt sé að samþykkja samninga með fyrirvara um samþykki borgarráðs. „Við værum að brjóta trúnað gagnvart öðrum borgarfulltrúum ef við myndum greina opinberlega frá samningum áður en þeir eru frágengnir í borgarráði,“ segir Hanna Birna.

Í ljósi þess að ýmsar tölur hafa verið nefndar í tengslum við kaup borgarinnar á fyrrgreindum húseignum liggur beint við að spyrja hvernig kaupverðið hafi verið reiknað út. „Talan tekur fyrst og fremst mið af verðmæti umræddra þriggja eigna og lóða sem og markmiðum borgarinnar með kaupunum. Að auki lá ljóst fyrir að borgin myndi alltaf bera einhvern kostnað af þessu og hún tekur líka mið af því, sem menn virðast gleyma í umræðunni, að við töldum verkefnið þess virði að við bærum af því einhvern kostnað.“

Í hnotskurn
» Borgarfulltrúi Framsóknarflokks telur að borgin hefði haft betri samningsstöðu gagnvart eigendum hefðu húsin við Laugaveg þegar verið friðuð.
» Óskar óttast að borgin þurfi í framhaldinu að kaupa enn fleiri hús við Laugaveg vegna þess fordæmis sem nú hafi verið sett og sett hafi allt skipulag við götuna í uppnám, að hans mati.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert