Hvatt til framkvæmda

Ráðherrar og forsvarsmenn samtaka launþega og atvinnurekenda á blaðamannafundi við …
Ráðherrar og forsvarsmenn samtaka launþega og atvinnurekenda á blaðamannafundi við Lækjartorg í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar komu saman í nýbyggingunni við Lækjartorg í Reykjavík í morgun til að hvetja almenning til að nýta sér að nú fæst endurgreiddur virðisaukaskattur af vinnu iðnaðarmanna við endurbætur á húsnæði. Einnig er skattaafsláttur í boði vegna þessa. 

Að átakinu standa, auk stjórnvalda,  Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Að sögn Finnbjörns Hermannssonar, formanns Samiðnar, er markmiðið með átakinu, sem ber yfirskriftina Allir vinna, að hvetja almenning og fyrirtæki til að fara í framkvæmdir. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að endurgreiðna 100% af virðisaukskatti vegna vinnu við endurbætur á húsnæði og einnig hafi Alþingi nýlega samþykkt lög, sem veita hjónum allt að 300 þúsund króna skattafslátt vegna vinnu iðnaðarmanna við endurbætur á húsnæði. 

„Við teljum að þessar aðgerðir skili sér mjög fljótt. Það verður farið núna í kynningarátak næstu 1-2 mánuði. Þessar ívilnanir gilda á þessu ári og því næsta og það er mikilvægt að fólk hugleiði þennan möguleika. Við viljum hvetja þá sem geta farið í framkvæmdir af þessum toga til að nýta sér nú tækifærið," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á blaðamannafundinum.

„Það vinna allir á þessu átaki - þeir sem eru að fjárfesta og fá þessar ívilnanir og þeir sem fá svo atvinnu sem þessar fjárfestingar skapa," sagði Jóhanna.

Leitað hefur verið til fjármálastofnanna varðandi framkvæmdalán til almennings á hagstæðum kjörum og þá mun Byggðastofnun bjóða fyrirtækjum á landsbyggðinni verðtryggð lán til viðhaldsverkefna til 12 ára á 7% vöxtum.  Sömuleiðis munu íslensk fyrirtæki verða með vikuleg tilboð á viðeigandi vörum og þjónustu.

mbl.is