Lögreglumaður dæmdur fyrir líkamsmeiðingar

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is / Hjörtur

Lögreglumaður sem ók á ölvaðan ökumann sem hann veitti eftirför í fyrra var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi í dag. Þarf hann að greiða 150 þúsund krónur í sekt auk um 400 þúsund króna í málsvarnarlaun verjanda síns.

Atvikið átti sér stað þann 22. ágúst í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafði verið reynt að stöðva för bifreiðar en ökumaðurinn sinnti því ekki. Hófst þá eftirför þar sem ökumaðurinn reyndi að stinga lögregluna af. Endaði eftirförin í íbúðarhverfi í Mosfellsbæ þar sem ökumaðurinn neyddist til þess að stöðva bifreiðina þar sem hann hafði ekið inn í lokaða götu.

Reyndi ökumaðurinn að stinga af á hlaupum en á sama tíma kom lögreglubifreið inn í götuna og ók á manninn. Beinbrotnaði ökumaðurinn við ákeyrsluna en hann reyndist bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Var lögreglumaðurinn í kjölfarið ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert