Höfða nýju framboðin til óánægjufylgisins?

mbl.is/Kristinn

Tilkynnt hefur verið um formlega stofnun tveggja nýrra stjórnmálahreyfinga undanfarna daga og að minnsta kosti sú þriðja er í burðarliðunum. Annars vegar er um að ræða samstarf Guðmundar Steingrímssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, og Besta flokksins undir heitinu Björt framtíð og hins vegar framboð á vegum Lilju Mósesdóttur, fyrrv. þingmanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og stuðningsmanna hennar sem fengið hefur nafnið Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar.

Þá er unnið að stofnun sameiginlegs framboðs ýmissa hópa undir vinnuheitinu Breiðfylkingin eins og fram hefur komið hér á mbl.is. Þar innanborðs eru meðal annars Hreyfingin, Borgarahreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn auk þess sem fulltrúar frá Lýðfrelsisflokknum og Samtökum fullveldissinna hafa að sögn komið að málum sem og einstaklingar sem sátu í stjórnlagaráði á síðasta ári.

Ólíkar forsendur framboðanna

Fyrrnefndu stjórnmálahreyfingarnar tvær eiga ýmislegt sameiginlegt. Fyrir það fyrsta hafa þær báðar orðið til í kjölfar þess að þingmenn hafa ekki talið sig geta starfað lengur með þeim stjórnmálaflokkum sem þeir voru kosnir á þing fyrir. Það eru þau Guðmundur og Lilja. Í annan stað hafa báðar hreyfingarnar ekki viljað staðsetja sig á neinum ákveðnum stað í hinu pólitíska landslagi að minnsta kosti enn sem komið er. Þá eru þær báðar skipaðar fólki sem kemur úr ýmsum áttum pólitískt.

Ljóst er að fólk úr ólíkum áttum kemur einnig að Breiðfylkingunni og að það framboð hefur ekki heldur verið staðsett enn á neinum ákveðnum stað pólitískt verði það yfirhöfuð gert. Framboðið er hins vegar frábrugðið hinum tveimur einkum að því leyti að um er að ræða eins konar kosningabandalag ólíkra samtaka og hópa sem flest hafa boðið fram áður fyrir þingkosningar og eitt þeirra hefur fulltrúa á þingi, það er Hreyfingin.

Markmiðið með samstarfinu undir formerkjum Breiðfylkingarinnar mun einkum vera það að tryggja að fulltrúar náist inn á þing og ná þannig fram ákveðnum samlegðaráhrifum í ljósi þeirrar reglu að framboð þurfi að ná að minnsta kosti 5% fylgi á landsvísu til þess að geta fengið kjörna fulltrúa. Þetta kom til að mynda fram í máli Sigurjóns Þórðarsonar, formanns Frjálslynda flokksins, í samtali við mbl.is 3. janúar síðastliðinn.

Einkum vinstra megin við miðju

Enn er margt óljóst varðandi framboðin þrjú eins og Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, kom meðal annars inn á í samtali við mbl.is fyrir helgi. Einkum varðandi Breiðfylkinguna sem hefur ekki verið stofnuð formlega enn. Væntanlega mun ýmislegt skýrast á næstunni frekar varðandi stefnur stjórnmálahreyfinganna og hvernig þær ætla sér að skipuleggja starfsemi sína fyrir næstu þingkosningar sem verða í síðasta lagi vorið 2013 eða eftir rúmt ár en gætu skollið á hvenær sem er.

Eins og fram hefur komið hafa skoðanakannanir bent til þess undanfarin misseri að verulegt fylgi kunni að vera á lausu. Þeir sem gera ekki ráð fyrir að mæta á kjörstað af einhverjum ástæðum, ætla að skila auðu, hafa ekki gert upp hug sinn eða geta ekki hugsað sér að kjósa neitt af þeim framboðum sem þegar eiga fulltrúa á þingi og allajafna er spurt um í könnunum. Misjafnt er eftir könnunum hversu margir hafa fyllt þennan hóp en um hefur verið að ræða tugi prósenta kjósenda samkvæmt þeim.

Þær fáu skoðanakannanir sem þegar hafa verið gerðar þar sem spurt hefur verið um nýju framboðin, eitt eða fleiri, hafa að sama skapi bent til þess að þau séu líklegust til þess að taka fylgi af vinstrivængnum og þá fyrst og fremst frá stjórnarflokkunum, Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Miðað við áherslur framboðanna þriggja virðast þau enda öll eiga fyrst og fremst heima einhvers staðar vinstra megin við miðju íslenskra stjórnmála.

Tveir stórir óánægjuhópar?

Hins vegar er enn eftir að koma í ljóst hvort nýju framboðin eigi eftir að ná til þeirra hópa kjósenda sem gera má ráð fyrir að mest óánægja sé til staðar hjá. Þar er líklega einkum um að ræða fylgi töluvert til vinstri sem kosið hefur VG en hefur verið ósátt við stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum eins og til að mynda varðandi stóriðju, niðurskurð, hvernig haldið hefur verið á málefnum bankanna og heimilanna í landinu og síðast en ekki síst að sótt hafi verið um inngöngu í Evrópusambandið.

Hinn hópurinn er það sem kalla má hægrafylgi Samfylkingarinnar en margir þar hafa greinilega verið mjög óánægðir með samstarfið við vinstri græna og einkum hvernig haldið hefur verið á efnahagsmálum þjóðarinnar og þá ekki síst andstöðu við erlendar fjárfestingar. Hvort nýju framboðin geti höfðað til þessara hópa er eftir að koma í ljós.

Fyrirfram má gera ráð fyrir að Samstaða sé einna líklegust til þess að höfða til óánægðra kjósenda VG sem margir hafa hætt stuðningi við þann flokk (nema kannski ef fram kæmi róttækt vinstrisinnað framboð) á sama tíma og Björt framtíð er sennilega líklegust til þess að ná til óánægðra fyrrverandi kjósenda Samfylkingarinnar. Ekki síst ef sýnt þykir að Samfylkingin stefni á áframhaldandi samstarf við vinstri græna að loknum næstu kosningum.

Áhugaverðar kosningar framundan

Möguleikar Breiðfylkingarinnar liggja hins vegar líklega helst í því að vel takist til við að sameina það fylgi sem þegar er á bak við þau framboð sem hana hafa í hyggju að mynda. Breiðfylkingin er í raun einna minnst óskrifað blað vegna þeirra skipulögðu framboða sem að henni ætla að standa og kann því að hafa minnsta möguleika í óánægjufylgið. Þá kannski ekki síst þar sem eitt af framboðunum er ein af þeim stjórnmálahreyfingum sem á fulltrúa á þingi og óánægjufylgið hefur ekki viljað styðja í skoðanakönnunum. Þetta á þó væntanlega eftir að skýrast þegar nær dregur kosningum.

Ekki er síðan hægt að útiloka að fleiri framboð kunni að eiga eftir að koma fram á sjónarsviðið fyrir næstu þingkosningar og þá er óvíst enn hvort af samstarfinu undir formerkjum Breiðfylkingarinnar verður en viðræður um það standa enn yfir. Það skýrist væntanlega innan skamms. Ef það gerist ekki munu þau framboð sem tekið hafa þátt í þeim viðræðum væntanlega bjóða fram undir eigin formerkjum. Það er því ljóst að það gæti stefnt í mjög áhugaverðar þingkosningar næst þegar þær fara fram hvort sem það verður vorið 2013 eða fyrr.

Guðmundur Steingrímsson, Alþingismaður.
Guðmundur Steingrímsson, Alþingismaður. mbl.is/Ómar
Lilja Mósesdóttir alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir alþingismaður. mbl.is/Ómar Óskarsson
Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari. mbl.is
Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins fremst á myndinni.
Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins fremst á myndinni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert