Hafna aðdróttunum Árna Þórs

Valitor segist hafna alfarið aðdróttunum Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG, um að fyrirtækið hefði sagt Alþingi ósatt.

Í yfirlýsingu frá Valitor segist fyrirtækið sjá sig knúið til að svara dylgjum alþingismannsins sem fram komu á vefmiðlum í dag í þá veru að Valitor hafi sagt Alþingi ósatt.

Í yfirlýsingunni segir:

1) Það er ekki rétt að Valitor hafi verið í viðskiptasambandi við Wikileaks eða Datacell í desember 2010 þegar allsherjarnefnd Alþingis fjallaði um málið. Það var danska stórfyrirtækið Teller sem veitti Wikileaks greiðsluþjónustu í gegnum fyrirtækið Kortaþjónustuna á Íslandi á þessum tíma.

2) Lokun Valitor á Datacell átti sér ekki stað fyrr en 7 mánuðum síðar, tengd öðru máli, eftir að Datacell hafði veitt rangar upplýsingar í umsókn sinni til Valitor og þannig komist í viðskipti við félagið um hríð. Það er því ljóst að Árni ruglar þessum tveimur aðskildu málum saman.

3) Árni staðhæfir að Valitor hafi verið umboðsaðili fyrir Teller. Það hefur Valitor aldrei verið.

 „Í ljósi þessa hafnar Valitor alfarið aðdróttunum þingmannsins. Gera verður þær lágmarkskröfur til þingmanna að þeir setji sig inn í málin áður en þeir tjá sig opinberlega um slík mál,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert