Máli Bjarna Randvers vísað frá

Bjarni Randver Sigurvinsson.
Bjarni Randver Sigurvinsson. Morgunblaðið/Sigurgeir S

Bjarni Randver Sigurvinsson, stundakennari við Guðfræði og trúarbragðafræðideild HÍ var sýknaður af kæru Vantrúar um óvönduð vinnubrögð við kennslu. Taldi siðanefnd HÍ ekki sannað að Bjarni Randver hefði reynt að rægja félagið eða ala á fordómum í garð þess.

Í kæru Vantrúar kom fram að félagið taldi sig ekki njóta sannmælis í umfjöllun Bjarna í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Taldi félagið að um væri að ræða hreinan „áróður og skrumskælingu á afstöðu þeirra. Í kennslustundum Bjarna hafi hann sagt Vantrúarmenn, talsmenn guðleysis hér á landi og erlendis. Taldi félagið Bjarna reyna að „rægja félagið og ala á fordómum í garð meðlima þess,“ með framsetningu kennsluefnis þar sem Vantrú kom við sögu. Slíkt hafi brotið gegn siðareglum háskólans.

Ekki dæmt út frá glærum

Í niðurstöðu siðanefndarinnar kemur meðal annars fram að glærur úr kennslustundum Bjarna Randvers, sem Vantrú studdist við í kæru sinni, hafi ekki sýnt fram á óvönduð vinnubrögð.

„Nefndin telur það ekki hafa þýðingu að greina nákvæmlega efni glæra sem Bjarni Randver studdist við í kennslu og kvartað er undan, þ.e einstakar tilvitnanir, textabrot, myndir eða önnur atriði út frá tilteknum þáttum siðareglnanna án tillits til þess samhengis sem glærurnar birtust í. Nefndin telur þó ekkert í hæft í þeim ásökunum kæranda að glærurnar leiði í ljós brot á siðareglum um skyldu kennara til að setja ekki fram hugverk annarra sem sín eigin,“ segir í niðurstöðu siðanefndar.


Jafnframt segir að kennsluhættir hafi „verið innan ramma lýsingar á viðfangsefnum, efnistökum og markmiðum námskeiðsins og hvorki falið í sér áróður né skrumskælingu. [...] Niðurstaða siðanefndar er að framkomin kæra um brot á siðareglum Háskóla Íslands sé tilefnislaus og uppfylli þar með ekki skilyrði 4. gr. starfsreglna nefndarinnar um málsgrundvöll. Kærunni er því vísað frá siðanefnd.“

Rúm tvö ár eru síðan málið hófst. Vantrú kærði Bjarna Randver upphaflega hinn 4. febrúar árið 2010 til siðanefndar. Alls hefur Bjarni verið kærður fimm sinnum af Vantrú. Auk kærunnar nú var hann kærður til deildarinnar, rektors, siðanefndarinnar og lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert