„Síðan kom bara svaka högg“

Siglufjörður.
Siglufjörður. www.mats.is

„Maður náttúrlega bara vaknaði eins og undanfarnar nætur. Það kom skjálfti í gærkvöldi eitthvað um tíuleytið. Síðan fór maður bara að koma sér í rúmið og svo vaknaði maður við þetta í nótt,“ segir Helga Kristín Einarsdóttir, íbúi á Siglufirði, í samtali við mbl.is en jarðskjálfti upp á 4,5 stig átti sér stað um klukkan 5:40 í morgun en skjálftahrina hefur gengið yfir Norðurland síðan um helgina.

„Það kom svona pínu hvinur fyrst, ekki eins mikill og í hinum skjálftunum, og síðan kom bara svaka högg og síðan bara víbraði allt aftur,“ segir Helga og bætir því við aðspurð að fólk hafi ekkert sofið mikið eftir það. „Maður á alltaf von á einhverju meira. Það byrja svona að glamra hjá manni glösin og síðan bíður maður bara og síðan kemur hvinur og loks svaka högg og síðan nötrar bara allt á eftir. Þetta er rosalega óþægilegt og maður er orðinn ansi þreyttur.“

Snjóflóðagarðarnir tekið við miklu grjóti

Helga segist hins vegar reyna að hugsa ekki of mikið um þetta ástand og hugsa frekar á þeim nótum að núna hljóti þetta að fara að verða búið. „Ég er líka með stelpu hérna og hún er náttúrlega bara orðin mjög hrædd og hundurinn ein taugahrúga. Þannig að þetta hefur greinilega áhrif á alla.

Ég fer stundum í fjallið með hundinn minn en ég fer ekkert þangað í bili. Það er ekkert nema grjót á veginum,“ segir Helga aðspurð um grjóthrun vegna skjálftanna en hún býr ofarlega í bænum. Hún segir að bæði sé um að ræða stórt grjót og lítið en snjóflóðagarðarnir fyrir ofan bæinn hafi tekið við miklu af því. Ekkert hafi þó lent á húsum eða valdið tjóni henni vitanlega.

Helga er ekki alveg sátt við upplýsingamiðlun um jarðskjálftana. Talað hafi verið um það í gær að einungis væri um að ræða eftirskjálfta en síðan hafi skjálftarnir í gærkvöldi og í morgun átt sér stað. „Mér finnst það rosalega óþægilegt þegar maður veit ekkert. Eitt er sagt núna og svo eitthvað allt annað í kvöld. Þetta er bara mjög óþægilegt. Maður hélt að þetta væri svona að fjara út, þetta væru bara eftirskjálftar, en mér finnst þetta ekki vera eftirskjálfti. Þetta er aðeins of mikið til þess,“ segir Helga.

Hringjast á og nota Facebook

Spurð hvort hún hafi heyrt í öðrum íbúum Siglufjarðar eftir jarðskjálftann í morgun segist Helga meðal annars vera í góðu sambandi við foreldra sína sem búi skammt frá. Þess utan segir hún íbúana hringjast á og nota ennfremur netið og samfélagsmiðla eins og Facebook til að skiptast á upplýsingum og halda sambandi. „Við bara hringjumst á og fólk notar Facebook og slíka miðla og það er voðalega gott að finna að maður stendur ekki einn í þessu. En þessu hlýtur nú að fara að ljúka,“ segir Helga.

„Foreldrar mínir búa hérna rétt hjá og þau upplifðu skjálftann 1963 þannig að þetta hristi aðeins upp í þeim. Ég er fædd og uppalin hér en ég man ekki eftir svona löguðu í svona langan tíma. Þótt það hafi komið hristingur hefur maður ekkert verið að velta því fyrir sér en þetta er orðið heldur mikið finnst mér,“ segir Helga.

mbl.is

Bloggað um fréttina