Starfsmenn Íslandsbanka sendir í leyfi

Glitnir.
Glitnir. mbl.is

Íslandsbanki hefur sent tvo starfsmenn í leyfi en sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur þeim fyrir síðustu helgi. Mennirnir eru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot gegn lögum um ársreikninga. Tveir menn til viðbótar eru ákærðir en fjórmenningarnir störfuðu allir hjá Glitni banka.

Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í morgun. Þar segir að sérstakur saksóknari hafi gefið út ákæru á hendur fjórum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu bankans til félagsins BK-44 í nóvember 2007.

Mennirnir eru Birkir Kristinsson, sem var yfirmaður einkabankaþjónustu Glitnis, Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.

Birkir og Elmar starfa hjá Íslandsbanka í dag. Hjá upplýsingafulltrúa Íslandsbanka fengust þær upplýsingar að hann myndi ekki tjá sig opinberlega um málefni einstakra starfsmanna. „Samkvæmt reglum bankans í slíkum málum fara starfsmenn í leyfi á meðan staða þeirra er metin og mál þeirra skýrast. Ferlið hjá Íslandsbanka er skýrt hvað svona mál varðar,“ segir þó og því ljóst að Birkir og Elmar hafa verið sendir í leyfi.

mbl.is