Ofbeldið falið og í þagnargildi

Hátt í 400 manns sitja nú málþingið sem fram fer …
Hátt í 400 manns sitja nú málþingið sem fram fer á Grand Hotel í Reykjavík. mbl.is/Jón Pétur

„Ég mun gera mitt til þess að við getum haldið áfram að vinna að nauðsynlegri vitundarvakningu hvað þetta erfiða mál snýr,“ sagði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra við upphaf málþings um kynferðisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Hún sagði ofbeldið vera staðreynd í íslensku samfélagi.

Málþingið markar tímamót þar sem þetta er í fyrsta sinn sem 12 ólíkir aðilar eða samtök koma saman til að fjalla um málefnið, en að málþinginu standa: Stígamót, Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, Landssamtökin Þroskahjálp, NPA-miðstöðin, Öryrkjabandalag Íslands, Kvennaathvarfið, Reykjavíkurborg, Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Þroskaþjálfafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Ás styrktarfélag.

Meðal þess sem fram hefur komið í ræðum þeirra sem hafa ávarpað þingið, er að kynferðisofbeldi sé framið í skjóli valds og þagnar. Rannsóknir sýni að fatlaðir einstaklingar eigi í mun meiri hættu á að því að verða fyrir slíku ofbeldi. Þá sé valdamunur á milli gerenda og fatlaðra einstaklinga mun meiri en á hjá ófötluðum, t.d. ótti við að tilkynna ofbeldi eða misnotkun.

Þá sé þögnin meiri hjá fötluðum einstaklingu og þekkingin minni, t.d. varðandi þeirra réttindi. Þeir hafa jafnframt færri úrræði til að leita sér aðstoðar.

Þá segja erlendar rannsóknir að ofbeldi gegn fötluðu fólki - þá er ekki einvörðungu um að ræða kynferðisofbeldi - sé mjög útbreitt. Rannsóknir sem beinast að báðum kynjum sýna að fatlaðar konur verða mun oftar fyrir ofbeldi en fatlaðir karlar og er þeim oft ekki trúað þegar þær greina frá ofbeldinu.

Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum, fór yfir rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum konum, sem mbl.is greindi frá sl. vor. Markmið hennar var að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og kanna við hvers konar aðstæður það átti sér stað og hvaða afleiðingar það hafði. Rannsóknin var eigindleg og náði til 13 fatlaðra kvenna sem orðið höfðu fyrir ofbeldi. 

Verðum að ýta undir umræðuna

 „Þessi mál hafa lengi verið falin og í þagnargildi,“ sagði Eygló í ávarpi sínu, og hún bætti að nú ætti sér stað vitundarvakning. 

„Við eigum að að nýta okkur það og ýta undir umræðuna - þótt hún sé erfið - til að svipta hulunni af þessu málum og átta okkur á því sem þarf að gera til að bregðast rétt við og koma í framhaldinu í veg fyrir ofbeldið.“

Hún tók fram að ákveðnar úrbætur hafi átt sér stað sem styrkja stöðu og réttindi fatlaðs fólks með lögum um réttindagæslu sem voru sett ári 2011. Á grundvelli þeirra hefðu réttindagæslumenn fatlaðs fólks tekið til starfa í öllum landshlutum.

„Réttindagæslukerfið er tiltölulega nýtt en það er tvímælalaust góður grunnur að byggja á og mikilvægt að efla þá þróun eftir því sem fram líða stundir. Gleymum heldur ekki samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem unnið er að að innleiða hér á landi. Hann hefur reynst mikilvægur leiðarvísir og áherslur hans ganga t.a.m. eins og rauður þráður í gegnum framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem samþykkt var á Alþingi fyrir rúmu ári,“ sagði ráðherra.

Auknar fjárveitingar til Stígamóta sem flytur í nýtt húsnæði

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði á málþinginu að það væri sannarlega stór stund að ná þessum hópum saman. Hún tók fram að hvað varði starfsemi Stígamóta, þá nái samtökin nái verr til fatlaðs fólks heldur en til ófatlaðra. 

Guðrún sagði að nú væri búið að ákveða að bæta þessa þjónustu. Nú hefðu fengist nægar fjárveitingar til að ráða einn starfsmann í tilraunastarf í heilt ár, þ.e. hann hefur það verkefni að bæta þjónustu við fatlað fólk. 

Þá greindi hún frá því að samtökin hafi ákveðið að flytja í nýtt húsnæði þar sem núverandi húsnæði sé orðið of lítið og aðgengi sé ekki nægilega gott. Auk þess verður boðið upp á heimaþjónustu. 

Guðrún tók fram í lok sinnar ræðu, að það séu ekki til neinar töfralausnir. „Þetta er verkefni sem við klárum aldrei,“ sagði hún og benti á mikilvægi símenntunar og forvarna. 

Rjúfa verður þögnina

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert