Lika bíður enn eftir svari

Lika Korinteli.
Lika Korinteli. Mbl.is/Eggert

Lika Korinteli, georgísk kona sem sótti um hæli hér á landi árið 2005, bíður enn eftir svari innanríkisráðuneytisins vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi hér á landi af mannúðaraðstæðum. mbl.is greindi frá því þann 29. október síðastliðinn að ráðuneytið hygðist svara umsókn hennar fyrir áramót. Nú, þegar desembermánuður er rúmlega hálfnaður, bíður Lika enn eftir svari.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er ekki heimilt að gefa upplýsingar um eintök mál. Þó er ljóst að Lika mun fá tilkynningu ef ekki reynist unnt að svara umsókn hennar áður en árið er á enda.

Nær ekki að festa rætur á meðan beðið er

Toshiki Toma, prestur innflytjenda, vakti fyrst athygli á máli Liku í aðsendri grein í Morgunblaðinu í lok október. Vegna sérstakra aðstæða getur Lika ekki framvísað þeim gögnum sem Útlendingastofnun krefst frá hælisleitendum, en allir formlegir pappírar Liku voru á skjalasafni í heimaborg hennar í Abkasíu sem kviknaði í á síðustu öld.

Lika hefur unnið hér á landi og greitt skatta frá árinu 2006 en hefur ekki aðgang að velferðar kerfinu, ekki einu sinni sjúkratryggingakerfinu. Hún getur hvorki öðlast ökuréttindi né sótt um bankalán þar sem hún hefur ekki lögheimili hér á landi.

Í samtali við mbl.is þann 29. október síðastliðinn sagði Lika að biðin eftir svari hefði tekið á. Hún býr við mikla óvissu og getur ekki leyft sér að hugsa um framtíðina á meðan hún veit ekki hvernig hennar mál mun þróast.

Þar sem hún hefur ekki aðgang að sjúkratryggingakerfinu þarf Lika að greiða mun hærri upphæði fyrir lyf og læknisaðstoð en flestir og leitar því ekki til læknis er útlit er fyrir að heimsóknin verði mjög kostnaðar söm. „Ég vona að þeir láti mig ekki deyja, verði ég svo veik að ég þurfi á aðgerð að  halda en hafi ekki efni á að greiða fyrir hana,“ sagði Lika í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Býr við mikla óvissu hér á landi.

Frétt mbl.is: Ríkisfangslaus og án réttinda.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert