Sé enga ástæðu til að skammast mín

Svavar veiktist 23 ára gamall þegar hann fór í geðrof …
Svavar veiktist 23 ára gamall þegar hann fór í geðrof sem stóð í nokkra mánuði og reyndi hann þá að taka eigið líf. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Svavar er 27 ára og er með geðrofssjúkdóm. Hann veiktist 23 ára gamall, fyrir um fjórum árum, þegar hann fór í geðrof sem stóð í nokkra mánuði og reyndi þá að taka eigið líf. Þá fannst honum eins og verið væri að senda út hugsanir hans, að allir í kringum hann vissu allt sem hann hugsaði. „Þetta var svo hræðilegt, mér leið svo illa,“ segir hann. „Mér fannst eins og allir vissu meira um mig en ég vissi sjálfur.“

Hann kemur ekki fram undir nafni, en segist vilja nota nafnið Svavar í viðtalinu. Hann er einn rúmlega 50 ungra karla og kvenna sem njóta þjónustu Endurhæfingar LR, sem er meðferð sérstaklega sniðin að þörfum ungs fólks með geðrofssjúkdóma. Hann býr með nokkrum ungum karlmönnum sem einnig eru með geðrofssjúkdóma og sækja þeir allir þjónustu til Endurhæfingar LR.

Þegar Svavar veiktist fyrst leitaði hann læknis sem ávísaði honum geðlyfjum og taldi síðan ekki þörf á frekari meðferð. Veikindin héldu áfram að ágerast og á endanum reyndi Svavar að taka eigið líf. Í framhaldi af því leitaði hann sjálfur á geðdeild Landspítalans, þar sem hann var lagður inn og síðan greindur með geðrofssjúkdóm.

Vildi ekki vera til

„Ég skar mig og ætlaði ekki að halda áfram að vera til. Mér fannst eins og ég ætti bara tvo kosti; að enda þetta eða viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég væri veikur í hausnum. Og ég gat ekki horfst í augu við það. En ég fór á geðdeild, og mér fannst frekar óraunverulegt að vera kominn þangað inn. Að átta sig á því að maður sé veikur í hausnum er skrýtin tilfinning í byrjun.“

Var erfitt að sætta sig við að vera með geðsjúkdóm? „Það var þannig fyrst. En fljótlega áttaði ég mig á því að ég gat ekkert gert í þessu. Síðan eftir smátíma var ég þakklátur fyrir að hafa loks fengið greiningu. Það útskýrir svo margt og nú er margt komið á hreint.“ 

Hann segist ekki vera feiminn við að ræða sjúkdóminn. „Mér finnst ekkert óþægilegt að ræða veikindin, ég er svosem ekkert að auglýsa hvað er að mér. En ég sé enga ástæðu til þess að skammast mín fyrir að vera með geðrofssjúkdóm.“

Svavar var á geðdeild í mánuð, en fékk síðan heilsdagspláss á Endurhæfingu LR. Hann hefur notið þjónustu þar undanfarin ár og er nú í samtalsmeðferð hjá sálfræðingum og geðlæknum og tekur geðlyf reglulega.

Hætti að hitta vinina og hætti í skólanum

Áður en Svavar veiktist hafði hann einangrað sig mikið félagslega. Hann segist hafa byrjað að draga sig í hlé 17-18 ára gamall, það hafi líklega verið upphafið af veikindunum. „Ég var í stórum vinahópi og var í skóla. Þegar ég var um 17 ára hætti ég að hitta vinina, hætti í skólanum og fór að vinna og þegar ég kom heim lokaði ég mig inni í herbergi. Þegar ég hugsa til baka þá hafði mér liðið illa síðan ég var 13-14 ára.“

Þetta er hræðileg tilfinning

Síðan Svavar fékk fyrsta geðrofið hefur hann fengið nokkur til viðbótar. Beðinn um að lýsa því hvað gerist þá, segist hann fá þá tilfinningu að ekkert sé eins og það eigi að vera. „Mér finnst eins og atburðir sem eru að gerast bæði hér og úti í heimi séu að gerast vegna mín. Mér finnst eins og allir séu að fylgjast með mér, ef ég keyri framhjá blokk finnst mér eins og það séu augu í öllum gluggum að horfa á mig. Þetta er hræðileg líðan.“

Býr sig undir nám

Svavar segist aldrei hafa verið jafn bjartsýnn og hann er þessa dagana. Hann leggur stund á listsköpun og tónlist og undirbýr sig nú fyrir nám í forritun, en til þess hefur hann fengið mikinn stuðning í Endurhæfingu LR. „Mér finnst eiginlega eins og ég hafi átt tvö líf - lífið áður en ég greindist og lífið eftir.“

Hvort lífið er betra? „Lífið eftir að ég fékk greininguna er miklu betra. Alveg klárlega.“

Frétt mbl.is: Geðrof er sjúkdómur unga fólksins

Frétt mbl.is: Fullyrði að kraftaverk hafi gerst

Frá Endurhæfingu LR, þar sem Svavar hefur notið þjónustu undanfarin …
Frá Endurhæfingu LR, þar sem Svavar hefur notið þjónustu undanfarin fjögur ár. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert