Göngumaðurinn fundinn

Björgunarsveitir að störfum.
Björgunarsveitir að störfum. mbl.is/Eggert

„Honum var orðið kalt og hann var orðinn blautur en annars var í lagi með hann,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson í Björgunarfélagi Hornarfjarðar, sem gerði leit að bandarískum ferðamanni í Hoffelsdal í kvöld.

Maðurinnvar vel búinn og vanur útivist að sögn Friðriks. Hann lagði af stað á miðvikudag og ætlaði að koma aftur til byggða í dag, en innst í Hoffelsdal treysti hann sér ekki lengra vegna vatnavaxta í Hoffelsá. „Það er búið að rigna hér eldi og brennisteini og áin hafði vaxið svo að hann treysti sér ekki yfir hana einn og ákvað bara að láta staðar numið og biðja um aðstoð,“ segir Friðrik.

Eiginkona hans dvaldi á hóteli á Höfn í Hornarfirði og fylgdist með för hans og þegar hann sendi sms um stöðu mála fyrr í dag óskaði hún eftir aðstoð björgunarsveita. Að sögn Friðriks hafði maðurinn skilað inn ferðaáætlun til Safetravel.is sem auðveldaði þeim leitina talsvert, því hann reyndist vera nokkurn veginn á þeirri leið sem hann hafði ætlað.

15 björgunarsveitarmenn frá Hornafirði gerðu leit að honum sem gekk fljótt og vel fyrir sig. Höfðu þeir sett sér þann tímaramma að bæta í hópinn og herða róðurinn ef ekkert spyrðist til mannsins fyrir kl. 19:30, en til þess kom ekki því maðurinn kom í leitirnar kl. 19:33.

Sjá einnig: Göngumanns leitað í Hoffelsdal

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert