Skoða frekari skiptingu ráðuneyta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það segir sig eiginlega sjálft að meðan ráðherra er í ríkisstjórn þá nýtur hann trausts,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um málefni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hanna Birna var í viðtali í kvöld, bæði á Stöð 2 og í Kastljósi, þar sem hún ítrekaði að hún hefði ekki gert neitt rangt í tengslum við lekamálið svokallaða.

Sigmundur Davíð segir að honum lítist ágætlega á að taka að sér málefni lögreglu- og dómsmála, þó svo að hann búist við að það ráðuneyti verði ekki á hans könnu um langan tíma. 

„Það leggst ágætlega í mig en verður ekki endilega til langs tíma. Við gerum ráð fyrir að ráðast í breytingar á stjórnarráðinu fljótlega, þar sem meðal annars er litið til breytinga í innanríkisráðuneytinu, til dæmis þess að aftur verði stofnað dómsmálaráðuneyti.“

Sigmundur Davíð ætlar á morgun að gera sér ferð í innanríkisráðuneytið til að hitta starfsfólk ráðuneytisins sem fer með málaflokkana. Undir dómsmálaráðuneytið féllu meðal annars málefni dómsmála og lögreglu. Hann á ekki von á að vera með aðstöðu bæði í forsætis- og innanríkismálaráðuneytinu.

Til skoðunar að skipta velferðarráðuneytinu

Forsætisráðherra segir vangaveltur um uppstokkun ráðuneyta hafa verið uppi allt frá stjórnarmyndunarviðræðum, þar sem meðal annars hafi verið horft til innanríkis- og velferðarráðuneytanna.

„Þá þegar kom til tals að endurreisa dómsmálaráðuneytið, það var álitamál hvort það passaði með samgönguráðuneytinu og öðru sem fór inn í innanríkisráðuneytið. Það er ekki bara út af þessu máli núna að þetta er í skoðun, og frekar stefnt í það að menn myndu aftur stofna dómsmálaráðuneyti. Það þyrfti því ekki að taka langan tíma,“ segir Sigmundur.

„Það er spurning hvort það sé til bóta að blanda öllum þessum málaflokkum undir einn hatt. Það var töluverð sérhæfing í gamla dómsmálaráðuneytinu.“

Þá segir hann einnig til skoðunar að kljúfa velferðarráðuneytið, þar sem tveir ráðherrar sitja, félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Velferðarráðuneytið er fjárfrekasta ráðuneyti ríkisins. „Það er annað sem hefur verið til skoðunar að kljúfa upp. Það er mjög stórt ráðuneyti og spurning hvort það sé til bóta að hafa það allt undir einum ráðuneytisstjóra eða hvort menn ættu að skipta með sér verkum.“

Sigmundur Davíð segist ekki hafa orðið var við óánægju innan raða sjálfstæðismanna þar sem verið er að flytja málaflokka ráðherra Sjálfstæðisflokksins til ráðherra Framsóknar. „Ég hef ekki orðið var við önnur en jákvæð viðbrögð hvað þetta varðar. Þetta er sameiginleg niðurstaða mín og fjármálaráðherra, og þar að auki eitthvað sem við gerum ráð fyrir að vari ekki lengi.“

Hann segir ákvörðun Umboðsmanns Alþingis um að taka málefni Hönnu Birnu til rannsóknar ekki hafa verið rædda sérstaklega í ríkisstjórn að öðru leyti en því að hún gerði ríkisstjórn grein fyrir stöðu málsins á ríkisstjórnarfundi í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert