Sérfræðingarnir allir tengdir málinu

Byko og Húsasmiðjan.
Byko og Húsasmiðjan. mbl.is

Fjölskipaður héraðsdómur í verðsamráðsmálinu svonefnda samanstendur af þremur héraðsdómurum. Dómsformaður upplýsti um það við fyrirtöku í morgun að leitað hafi verið logandi ljósi að sérfróðum meðdómsmanni en þeir sérfræðingar sem komið hafi til greina séu verjendur eða tengjast málinu á annan hátt.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari höfðaði málið á hend­ur tólf starfsmönnum Húsa­smiðjunn­ar, Byko og Úlfs­ins bygg­inga­vara í maí sl. vegna gruns um verðsam­ráð. Sak­born­ing­arn­ir neituðu all­ir sök í mál­inu þann 22. maí síðastliðinn og hefur það síðan gert að málinu var vísað frá hvað einn sakborninga varðar. Aðalmeðferð vegna ákæru á hendur hinum ellefu sem eftir standa hefst 11. febrúar næstkomandi og er ráðgert að hún taki þrettán daga, þar af fari fjórir dagar í málflutning.

Í morgun var farið yfir praktísk atriði, s.s. hvernig haga skuli aðalmeðferðinni og hvað skuli bera undir sakborninga. Þannig stóð til að saksóknari spilaði upptökur hlerana sérstaks saksóknara í fimm klukkustundir. En eftir nokkrar umræður kom í ljós að flest símtölin voru óumdeild og engin ástæða til að spila þau. Lögfræðilegt túlkunaratriði er svo hvort efni þeirra sé saknæmt eður ei.

Einnig var ákveðið að sakborningar verði spurðir út í einstaka ákæruliði í stað þess að spyrja þá út í alla ákæruliðina í einu. Er það gert til að auðvelda dómara vinnu eftir að aðalmeðferðinni lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert