Gerðist ekki brotleg við lög

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. mbl.is/Eggert

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, tekur í yfirlýsingu fram að hún hafi ekki gerst brotleg við lög þegar hún varð við ósk aðstoðarmanns Innanríkisráðherra um að senda honum skýrsludrög um málefni hælisleitanda þann 20. nóvember 2013.

Í frétt á vef Kjarnans kom fram að Sigríður Björk hefði brotið lög og að það kæmi fram í úrskurði Persónuverndar. Í yfirlýsingu Sigríðar Bjarkar segir að Persónuvernd komist að þeirri niðurstöðu að miðlun skýrsludraganna hafi ekki stuðst við viðhlítandi heimild þar sem hún var ekki á meðal gagna í því máli hælisleitandans sem til meðferðar var í ráðuneytinu. „Það gat ég sem sendandi hvorki vitað né tryggt.“

Þá segi Persónuvernd í úrskurði sínum „að móttaka aðstoðarmannsins á skýrsludrögunum frá Lögreglunni á Suðurnesjum hafi talist liður í starfsemi ráðuneytisins og það því ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem í móttöku draganna fólst“. Það hafi því verið ráðuneytisins að tryggja að rétt yrði farið með skjalið. Það var mat lögreglunnar á Suðurnesjum að lagaleg heimild væri til staðar fyrir miðlun skýrsludraganna.

Af niðurstöðu Persónuverndar verði einnig ráðið að þörf er á að yfirfara innan stjórnsýslunnar verkferla vegna krafna um upplýsingaöryggi og öryggi við miðlun persónuupplýsinga.

mbl.is