Engin leynd, „vitað um allan bankann“

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og Guðný Arna Sveindóttir, sem er …
Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður og Guðný Arna Sveindóttir, sem er ákærð í málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, eins hinna ákærðu í Marple-málinu, fór mikinn í málflutningi sínum í dag og réðst með hörðum orðum gegn framkvæmd rannsóknar og saksóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Sagði hann að umbjóðandi sinn hefði misst vinnuna, þurft að flytjast úr landi og haft ásakanir hangandi yfir sér undanfarin 5 ár. „Það er þungur baggi að vera sakaður um 8 milljarða auðgunarbrot í 5 ár,“ sagði hann og bætti við að ekkert í málinu hefði sýnt fram á sekt hennar.

Ræðuna flutti Sigurður að mestu leyti blaðlaust í um 50 mínútur, en einu skiptin sem hann rýndi í blaðastaflann fyrir framan sig var til að vitna beint í ummæli úr bréfum eða vísa í blaðsíðutöl. Var hún nokkuð dramatísk og höfðaði hann ítrekað til samvisku bæði dómenda og saksóknara í málinu.

Búið að hreinsa hús og aðrar eignir af Guðnýju

Guðný Arna var áður fjármálastjóri Kaupþings, en Sigurður sagði að eftir hrun væri búið að hreinsa af henni húsnæðið og allar eigur. Það væri því nokkuð furðulegt að slitabú Kaupþings banka væri að fara fram á 8 milljarða skaðabótakröfu á hendur henni þegar vitað væri að hún gæti aldrei greitt slíka upphæð.

„Allt í nafni réttlætis“

Sigurður gagnrýndi harðlega, eins og fleiri lögmenn í svokölluðum hrunmálum hafa gert áður, hvernig embætti sérstaks saksóknara var stofnað og hvert hlutverk þess var. „Allt í nafni réttlætis,“ sagði hann og bætti við að „svonefnt réttlæti“ hafi átt að nást með stofnun embættisins sem átti að sefa reiðina á Austurvelli frá haustinu 2008 til stjórnarskiptanna 2009. „Dómstólar eiga ekki að láta löggjafann bjóða sér svona dellu,“ sagði Sigurður og hvatti dómstóla til að stíga niður fæti í þessum efnum, enda væri hlutverk þeirra að verja borgara fyrir ofvaldi löggjafans og framkvæmdavaldsins.

Eins og fleiri verjendur í málinu hafa gert sagði Sigurður að saksóknara hafi ekki tekist að sýna fram á ákærðu hefðu gerst sek um fjárdrátt eða umboðssvik. Sagði hann í því sambandi það vera grundvallaratriði að meintur brotamaður hefði þekkt til eða vitað um hvaða félag væri rætt svo hægt væri að tala um fjárdrátt. Sagði hann svo ekki eiga við um Guðnýju og Marple, enda hafi hún komið að millifærslu frá móðurfélaginu Kaupþingi til dótturfélagsins í Lúxemborg, en aldrei vitað af félaginu Marple í Lúxemborg.

Þarft að vita hvert peningarnir eru að fara

Sagði hann að ef dæma ætti sekt í svona máli þyrfti að sýna fram á einhverskonar ásetning og vitneskju um að verknaðurinn leiði til brots. „Til að hafa þennan ásetning þarftu að vita hvert peningarnir eru að fara,“ sagði Sigurður og ítrekaði að það hafi ekki verið svo í tilfelli Guðnýjar.

Rifjaði hann meðal annars upp bréf sem Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings og einn ákærðu í málinu, ritaði til sérstaks saksóknara áður en ákæra var gefin út í málinu. Þar sagði Hreiðar að Guðný hefði ekkert vitað um umrætt félag og að hún hefði ekki haft neitt ákvörðunarvald þar að lútandi, heldur aðeins tekið við fyrirmælum frá honum. „Þótt þetta bréf liggi fyrir, þá dettur þeim í hug að þvæla algjörlega saklausum einstaklingi inn í þessi réttarhöld,“ sagði Sigurður.

Sagði innri endurskoðanda villa fyrir rannsakendum

Taldi Sigurður að helsta ástæða þess að farið var af stað með ákæru í málinu þá að innri endurskoðandi Kaupþings hafi villt fyrir rannsakendum. Sagði hann að rannsakendur hafi ekki skilið um hvað málið snérist og trúað orðum innri endurskoðandans um að færslur frá Kaupþingi fælu í sér „bókhaldsæfingar.“

Vitað um millifærslurnar um allan bankann

Sagði hann að búið væri að skýra allar millifærslurnar og það væru eðlilegar ástæður á bak við þær. Þá hefði heldur engin leynd verið yfir meintum brotum sem hafi best sést á því að Guðný Arna sendi póst með fyrirmælum um millifærsluna á einn til þrjá aðra en bara eiginlegan viðtakenda og sama þegar fólk var að velta fyrir sér hvernig best væri að bóka færsluna. „Vitað um allan bankann að verið sé að færa peninga frá einum reikningi í Kaupþingi yfir í Kaupþing í Lúxemborg,“ sagði hann.

Sigurður benti í máli sínu á að ekkert í flutningi saksóknara hafi náð að fullnægja ásetningsskilyrðum almennra hegningarlaga eða auðgunarkröfu varðandi fjárdrátt eða umboðssvik. „Raunar ætti saksóknari enn að fella málið niður,“ sagði hann og benti á að það væri enn hægt. „Það þarf að fara í meiriháttar lögfræðifimleika og sveigja sönnunarkröfu og sönnunarskyldu,“ sagði hann ákvörðun saksóknara að ákæra Guðnýju Örnu.

Sigurður gagnrýndi Arnþrúði Þórarinsdóttur, saksóknara í málinu og framkvæmd rannsóknar …
Sigurður gagnrýndi Arnþrúði Þórarinsdóttur, saksóknara í málinu og framkvæmd rannsóknar og saksóknar í málinu. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert