Undirrituðu síðustu undanþáguna

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Seðlabankastjóri og framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands skrifuðu í dag undir síðustu undanþáguna frá takmörkunum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Seðlabanki Íslands hefur nú veitt sjö undanþágur, með þeirri undanþágu sem veitt var í dag, og veitt mat sitt á efnahagslegum áhrifum sjö frumvarpa að nauðasamningum fallinna viðskiptabanka og sparisjóða, að því er kom fram í tilkynningunni.

Þar með er ljóst að allir fallnir viðskiptabankar og sparisjóðir sem falla undir lög um stöðugleikaskatt, samtals átta, munu fara leið nauðasamnings á grundvelli uppfylltra stöðugleikaskilyrða. Einn aðili hafði þegar gert nauðasamning og annar þurfti ekki undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál.

„Með þessari niðurstöðu er lokið einum stærsta kaflanum í uppgjörinu eftir fjármálakreppuna hér á landi,“ segir í tilkynningunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert