Bjarni bað Harald afsökunar

Haraldur Ólafsson og Bjarni Benediktsson á fundinum í dag.
Haraldur Ólafsson og Bjarni Benediktsson á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Ólafsson, fyrrverandi vistmaður á Kópavogshæli, segir að fundurinn með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra hafi verið góður.

Bjarni boðaði Harald og Brynju Snæbjörnsdóttur, formann Þroskahjálpar, á sinn fund klukkan 13 í forsætisráðuneytinu og stóð hann yfir í eina og hálfa klukkustund.

„Við ræddum allt mögulegt í sambandi við skýrsluna og um búsetuúrræði,“ segir Haraldur, sem var þriggja ára þegar hann var vistaður á Kópavogshæli árið 1959. Hann dvaldi þar næstu 22 árin. 

Einnig var rætt á fundinum um sanngirnisbætur en Samtök vistheimilabarna hafa farið fram á að bæturnar verði mun hærri en hingað til hafa verið ákvarðaðar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni bað fyrrverandi vistmenn Kópavogshælis afsökunar fyrir helgi á þeirri slæmu meðferð sem þeir sættu. „Það var mjög gott að fá afsökunarbeiðni frá ríkinu,“ segir Haraldur og bætir við að Bjarni hafi beðið hann aftur afsökunar á fundinum.

mbl.is