Viðbótargögn styðja við fyrri niðurstöðu

Skýrslan um Kópavogshæli kom út í lok síðasta árs.
Skýrslan um Kópavogshæli kom út í lok síðasta árs. Ómar Óskarsson

Vistheimilanefnd telur ekkert hafa komið fram í viðbótargögnum sem nefndinni bárust frá Landspítalanum um börn sem vistuð voru á Kópavogshæli sem breyti niðurstöðum sem kynntar voru í lok síðasta árs. Viðauki við fyrri skýrslu var birtur á vef innanríkisráðuneytisins í dag.

Segir í viðaukanum að vistheimilanefnd hafi farið yfir þær sjúkraskrár sem hafi borist frá Landspítalanum eftir að skýrslunni var skilað og þar hafi verið að finna upplýsingar sem hafi verið sambærilegar fyrri gögnum sem voru til grundvallar í skýrslunni. Telur nefndin að þau styðji því enn frekar við niðurstöðu nefndarinnar.

Eftir að skýrslan um Kópavogshæli var kynnt 29. desember í fyrra ákvað RÚV að grennslast fyrir um ástæður þess að sjúkraskrár 48 einstaklinga hefðu ekki fundist. Í kjölfar ábendinga frá Landspítala um hugsanlega tilvist frekari gagna ákvað vistheimilanefnd að senda spítalanum lista yfir þá 48 einstaklinga sem engin sjúkraskrárgögn lágu fyrir um.

Í ljós kom að Landspítali hafði upplýsingar um 46 einstaklinga í þessum hópi. Af þeim tveimur sem eftir standa virðist sem einn hafi látist rétt áður en til vistunar kom en engin skýring er á því hvers vegna engar upplýsingar finnast um hinn. Þá kom í ljós að fæðingardagar í gögnum frá Þjóðskjalasafni reyndust ekki réttir í öllum tilvikum og einn einstaklingur í þessum hópi reyndist hafa verið vistaður á fullorðinsaldri en ekki á barnsaldri eins og talið hafði verið.

Í viðaukanum segir að af hálfu Landspítala hafi því verið lýst að kassarnir 27 sem sendir voru til nefndarinnar árið 2013 hefðu þá nýverið borist skjalasafni spítalans í einu lagi. Ákveðið hefði verið að senda nefndinni þessi gögn og gera ekki frekari leit enda, að sögn spítalans, útilokað að finna gögn um einstaklinga án þess að hafa nöfn eða kennitölur. Nefndin tekur fram að þessar skýringar hafi ekki fylgt sendingu kassanna til nefndarinnar.

mbl.is