Ráðherrum heimilt að kynna sér gögnin

Sigríður Andersen.
Sigríður Andersen. Eggert Jóhannesson

Öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar er frjálst að kynna sér efni trúnaðarskjala vegna ákvörðunar um uppreist æru, þ.m.t. forsætisráðherra. Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni rekur Sigríður mál er varðar umsögn föður forsætisráðherra um umsækjanda um uppreist æru, aðkomu sína og ríkisstjórnarinnar að málinu. Að sögn Sigríðar fer ákvörðun um uppreist æru frá ráðuneyti, inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geti kynnt sér þau skjöl sem þar búi að baki.

„Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma. Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráðherra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun,“ segir Sigríður í greininni, en hún segir hug sinn hvíla hjá aðstandendum og brotaþolum.

Grein Sigríðar Andersen fer hér á eftir í heild sinni:

Uppreist æru

Eftir Sigríði Andersen

Mál á borði ráðherra í hvaða ráðuneyti sem er eru jafnan mörg en mismikil að vöxtum. Mörg eru einstök, eins og smíði lagafrumvarpa, en mörg eru hefðbundin í þeim skilningi að þau lúta að afgreiðslu erinda sem tilteknu ráðuneyti er falið að afgreiða. Dæmi um hið síðarnefnda er afgreiðsla umsókna einstaklinga um uppreist æru. Slíkar umsóknir berast ráðuneytinu árlega og að meðaltali 1-2 afgreiddar á ári síðustu 30 ár.

Uppreist æra er ævafornt fyrirbæri þótt hún sé sjaldan í fréttum. Það er því skiljanlegt að ekki sé öllum ljóst hvað í henni felst og hvað í henni felst ekki. Í uppreist æru felst ekki að viðkomandi maður hafi ekki framið brot sitt. Í henni felst ekki að brotið hafi ekki verið alvarlegt. Í henni felst ekki einu sinni að brotið komi ekki lengur fram á sakavottorði. Í uppreist æru felst að dómur um refsingu sem hefur verið afplánuð eftir þeim reglum sem um það gilda hefur ekki sérstök réttaráhrif lengur. Hinn dómfelldi öðlast borgararéttindi sín að nýju. Hann er jafn sekur um brot sitt og hann var áður.

Vélræn afgreiðsla

Á vordögum fékk ég inn á mitt borð minnisblað frá sérfræðingum ráðuneytisins þar sem lagt var til við mig að leggja til við forseta að tilteknum einstaklingi yrði veitt uppreist æra. Fram kom í minnisblaðinu að umsækjandi hefði lokið afplánun dóms vegna kynferðisbrots gegn barni fyrir um áratug. Einnig kom fram að meginreglan hvað varðar tímafresti eins og hún hafði verið í framkvæmd undanfarna áratugi sé í 3. mgr. 85. gr., sem kveður á um 2 ár frá því að refsing er að fullu úttekin en ekki í 2. mgr. 85. gr. sem þó virðist vera meginregla að lögum og kveður á um 5 ára tímamark.

Við skoðun mína á málinu komst ég að þeirri niðurstöðu að framkvæmd við veitingu uppreistar æru hefði ekki verið í samræmi við löggjafarviljann eins og hann var árið 1940 er lögleidd voru þau ákvæði um uppreist æru sem gilda í dag. Ég þekki hins vegar vel það sjónarmið stjórnsýslunnar að jafnræðis þurfi að gæta við afgreiðslu mála og að sambærileg mál fái sambærilega meðferð. Sjálfri fannst mér það einnig óeðlilegt að umsagnir manna, sem ráðuneytið óskar eftir til frekari staðfestingar á því að hegðun umsækjanda hafi verið góð á tímabilinu, hafi ekki verið sérstaklega sannreyndar með einhverjum hætti þótt ekki væri nema með einu símtali til umsagnaraðila.

Ég var upplýst um það að síðustu tveir forverar mínir hafi gert athugasemdir við það að öllum umsækjendum hafi verið veitt uppreist æra óháð þeim brotum sem þeir höfðu verið dæmdir fyrir. Hafi farið fram að ósk ráðherranna ítarleg skoðun á þeim möguleika að synja erindum tiltekinna umsækjenda. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins væri ráðuneytinu ekki stætt á öðru en að leggja til við ráðherra að öllum umsækjendum sem uppfylla lagaskilyrði yrði veitt uppreist æra.

Á þessum tímapunkti í byrjun maí komst ég að þeirri niðurstöðu að áratugalöng framkvæmd við veitingu uppreistar æru hafi leitt til heldur vélrænnar afgreiðslu á umsóknum um uppreist æru, því miður með vísan til skráðra og óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins. Að mínu mati hefur stjórnsýslan þannig borið löggjafann ofurliði. Ég féllst ekki á þessa framkvæmd og hef ekki veitt neinum uppreist æru.

Upplýsingar um gögn

Hinn 15. júní er kveðinn upp Hæstaréttardómur þar sem felld var niður svipting lögmannsréttinda Róberts Downey. Var í rökstuðningi dómsins vísað til þess meðal annars að Róbert hefði fengið uppreist æru 16. september 2016. Samdægurs hófst umfjöllun fjölmiðla um fyrirbærið uppreist æra og hvernig umsóknir um slíkt væru afgreiddar. Þrátt fyrir að ég hafi enga aðkomu átt að því máli veitti ég hins vegar viðtöl daginn eftir og sagði aðspurð að hefði málið komið inn á mitt borð hefði ég skoðað mál Róberts sérstaklega og vísaði um það til þeirra aðstæðna sem ég hafði verið í fyrr um vorið. Ég nefndi það líka að framkvæmdina þyrfti að endurskoða og þá færi best á því að Alþingi kæmi að því. Ég óskaði svo strax eftir því í ráðuneytinu að tekinn yrði saman listi yfir allar umsóknir um uppreist æru og afdrif þeirra síðustu áratugina en enginn tölfræði hafði áður verið tekin saman í þessum málaflokki. Afrakstur þeirrar vinnu, sem var tímafrek, var listi aftur til ársins 1995 sem var birtur samstundis á vefsíðu ráðuneytisins hinn 14. ágúst.

Í kjölfar þessa dóms Hæstaréttar óskuðu fjölmiðlar eftir öllum gögnum í máli Róberts Downey. Hinn 22. júní 2017 tók ráðuneytið þá varfærnu afstöðu að hafna beiðni um afhendingu gagnanna með vísan til þess að í þeim væru upplýsingar sem ekki væri heimilt að veita aðgang að. Var um þetta vísað meðal annars til 9. gr. upplýsingalaga sem kveður á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Um leið var fjölmiðlum leiðbeint um þann möguleika að bera þessa ákvörðun ráðuneytisins undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Það gerði RÚV samstundis. Því miður lá úrskurður nefndarinnar ekki fyrir fyrr en tæpum þremur mánuðum síðar, hinn 11. september. Með úrskurðinum var kveðið á um skyldu ráðuneytisins til að afhenda gögnin en jafnframt staðfest sú afstaða ráðuneytisins að í gögnunum væru upplýsingar sem ekki væri rétt að afhenda. Það liggur því fyrir að hefði ráðuneytið afhent gögnin í samræmi við kröfu fjölmiðla hefði það brotið lög.

Viðbrögð ráðuneytisins við úrskurði nefndarinnar voru þau að afhenda tafarlaust gögnin þeim fjölmiðlum sem óskað höfðu eftir. Rétt er að vekja athygli á því að ráðuneytið hefði getað óskað eftir því við nefndina að fresta réttaráhrifum úrskurðarins í þeim tilgangi að bera hann undir dómstóla innan sjö daga eins og lög heimila. Jafnvel þótt sitthvað í úrskurðinum hafi orkað tvímælis að mati ráðuneytisins, og ekki víst að dómstóll hefði komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og nefndin, var það ekki gert. Leyndarhyggjan var ekki meiri en svo.

Trúnaðarsamtal við forsætisráðherra

Allt þar til í síðustu viku hef ég ekki séð gögn í nokkru máli er lýtur að uppreist æru og afgreidd hafa verið í ráðuneytinu fyrir mína tíð, utan frumrits tillögu til forseta Íslands í máli Róberts Downey. Ég óskaði aldrei eftir því og hafði ekki nokkurn hug á að setja mig inn í einstakar embættisfærslur forvera minna. Hinn 21. júlí var ég hins vegar upplýst um það af ráðuneytisstjóra, án þess að hafa eftir því leitað, að við skoðun eldri gagna hefði komið í ljós að meðal umsagna í einu máli sem afgreitt hafði verið sama dag og umsókn Róberts, hafi verið umsögn föður forsætisráðherra. Vikurnar á undan, í tengslum við mál Róberts Downey, höfðu verið sagðar misvísandi fréttir af því að forsætisráðherra, sem þá var fjármálaráðherra, hafi á einhvern hátt haft aðkomu að afgreiðslu málsins. Ég hafði ekki látið þær fréttir mig nokkru varða enda fyrir mína tíð í embætti.

Allt að einu, í ljósi þessara fjölskyldutengsla ráðherrans við einn umsagnaraðila taldi ég rétt að ræða þetta við forsætisráðherra. Hann kom af fjöllum. Síðar var það staðfest að forsætisráðherra hafði alls ekki gegnt stöðu innanríkisráðherra við afgreiðslu málsins í september 2016. Hann sat hins vegar ríkisstjórnarfundinn sem afgreiddi málið til forseta.

Ákvörðun um uppreist æru fer frá ráðuneyti inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta kynnt sér þau skjöl sem búa þar að baki. Efni þeirra skjala er því ekki trúnaðarmál fyrir þeim, hvað þá forsætisráðherranum sjálfum. Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma. Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráðherra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun.

Endurskoðun á lögum er löngu hafin

Frá því ég tók við embætti dómsmálaráðherra hefur engin umsókn um uppreist æru verið afgreidd. Þvert á móti gerði ég athugasemd við afgreiðslu þeirra mála eins og hún birtist mér við nánari skoðun. Ég hóf endurskoðun á framkvæmdinni nokkru áður en fjölmiðlaumfjöllun um þessi mál hófst í júní. Ég kynnti í ríkisstjórn 11. ágúst að ég myndi leggja fram í haust frumvarp til laga sem afnæmi alfarið heimild til þess að veita uppreist æru og um leið breyta nokkrum tuga lagaákvæða er kveða á um óflekkað mannorð sem skilyrði til ýmissa trúnaðarstarfa. Á opnum fundi Allsherjar- og menntamálanefndar í lok ágúst lýsti ég sýn minni á nýtt fyrirkomulag um endurheimt borgaralegra réttinda. Ég veit ekki til þess að nokkur annar þingmaður hafi gert það opinberlega og hef ég þó margáréttað við þingmenn sem hæst hafa látið að þeim er í lófa lagið að leggja fram frumvarp til laga um hvaðeina sem þeim dettur í hug. Ég hef einnig áréttað að mínar dyr í ráðuneytinu standi þeim ávallt opnar hafi menn ábendingar eða tillögur sem gætu nýst við lagabreytinguna. Ég hef ekki heyrt hvorki hósta né stunu frá öðrum þingmönnum að þessu leyti en ég hef þó ekki skynjað annað en að menn séu ánægðir með þá vinnu sem ég hóf í sumar. Þrátt fyrir sundrung í ríkisstjórninni mun ég beita mér fyrir því að sú vinna haldi áfram í dómsmálaráðuneytinu.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Pólitískar ávirðingar tek ég ekki nærri mér. Stjórnmálamenn mega búast við nánast hverju sem er í þeim efnum. Hitt tek ég þó afar nærri mér og finnst sárt, að menn ætli til viðbótar við hefðbundin stjórnmálaátök að brigsla mér og öllum flokkssystkinum mínum um „gamaldags“ leyndarhyggju og yfirhylmingu með kynferðisbrotamönnum vegna þess eins að ráðuneyti mitt tók varfærna ákvörðun um birtingu viðkvæmra gagna. Höfum í huga að ef persónuvernd er rofin verður það ekki aftur tekið en alltaf má bæta úr því ef upplýsingagjöf er ekki nægileg.

Ég er mjög hugsi yfir þeirri kröfu fjölmiðla að óska eftir gögnum í þessum málum. Ég er ekki í vafa um að birting þessara gagna mun ýfa upp sár og valda mörgu fólki sálarangist. Brotaþolar finna sig mögulega knúna til þess að endurmeta afstöðu sína til fólks sem þeir hafa aldrei átt neitt sökótt við. Fólks sem hefur ekkert annað til sakar unnið en að hafa viljað sýna velvilja í garð náungans sem felst í því að gefa jafnvel þeim sem hafa framið smánarlegustu glæpi færi á öðru tækifæri í lífinu.

Aðstandendur, brotaþolar og umsagnaraðilar. Hinir dæmdu líka og aðstandendur þeirra. Hugur minn er hjá öllu þessu fólki nú. Ég vona að í opinberri umræðu um birtingu gagna um þetta fólk muni enginn fara offari og að þegar fram líða stundir verði hægt að rifja hana upp án þess að valda mönnum óþarfa þjáningum.

Höfundur er dómsmálaráðherra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »