„Nú förum við og virkjum“

Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, segir að alveg frá upphafi …
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, segir að alveg frá upphafi hafi verið ætlunin að orkan úr Hvalárvirkjun myndi nýtast að sem mestu leyti innan Vestfjarða. Ljósmynd/Bæjarins besta

Þegar véltæknifræðingurinn og einn stofnanda Vesturverks, Gunnar Gaukur Magnússon, sat á skrifstofunni á Ísafirði fyrir nokkrum árum urðu oft truflanir á rafmagninu með þeim afleiðingum  að vinnuskjöl töpuðust. „Í eitt skiptið snéri ég mér að vinnufélaga mínum, Hallvarði Asperlund, og sagði: „Andskotinn, nú sæki ég um vinnu hjá Orkubúinu og athuga hvort þeir geti ekki notað mig í eitthvað“.“

Gunnar stóð við þetta, sótti um vinnuna en var hafnað. „Þá sagði ég við Hallvarð: „Nei, Þetta læt ég ekki bjóða mér. Nú förum við og virkjum“.“

Nú tíu árum síðar er virkjanahugmyndin, Hvalárvirkjun, langt komin í skipulagsferli. Hún er í nýtingarflokki rammaáætlunar, búin að gangast undir mat á umhverfisáhrifum og í auglýsingaferli  eru tillögur að breytingum á aðalskipulagi. Á þessum áratug varð þó ýmislegt til þess að tefja verkefnið, að sögn Gunnars. Meðal annars bankahrunið.

Fóru strax af stað

Aðeins tveimur dögum eftir að Gunnar kom með þá hugmynd að byggja virkjun höfðu hann og Hallvarður samband við Pétur Guðmundsson landeiganda í Ófeigsfirði í Árneshreppi á Ströndum og báru hugmyndina, sem gekk út á að virkja rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði, undir hann. Pétur tók þeim vel og þar með voru  samningaviðræður um vatnsréttindi sem til þurfti komnar á skrið. 

Í kjölfarið fóru VesturVerksmenn margar ferðir suður til Reykjavíkur til að ná samningum við Pétur og  Felix von Lango-Liebenstein, eiganda jarðarinnar Engjaness í Eyvindarfirði. Gunnar segist aldrei hafa hitt Lango-Liebenstein í eigin persónu en samið hafi verið um vatnsréttindin við lögmann hans.

„Það tók okkur allan veturinn, tæpt ár, að tryggja okkur öll vatnsréttindi sem til þurfti,“ segir Gunnar.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

 Þá tók við vinna við að afla fjármagns til frekari undirbúnings áformanna. Þar komu Gunnar Gaukur og félagar hins vegar alls staðar að lokuðum dyrum. „Við fórum þrisvar sinnum að ræða við Orkubú Vestfjarða en þeir höfðu engan áhuga á að koma að þessu með okkur. Landsvirkjun svaraði okkur ekki einu sinni.“

HS Orka kemur til sögunnar

Vesturverk var í þessum viðræðum á viðkvæmum tímum í miðju bankahruni. Bankarnir höfðu slegið í lás og hvergi var fjármögnun að hafa. „Við vildum einmitt fara af stað í hruninu. Þá var rétti tíminn fyrir svona framkvæmd sem þurfti mikið mannafl í miklu atvinnuleysi.“

Að lokum, en þó ekki fyrr en árið 2015, var það HS Orka sem vildi ganga til samstarfs við Vesturverk. Í millitíðinni hafði  Hvalárvirkjun verið sett í nýtingarflokk rammaáætlunar og þegar fjármagn til áframhaldandi vinnu að verkefninu var tryggð með kaupum HS Orku á 70% hlut í Vesturverki fóru hlutirnir að gerast fyrir alvöru að sögn Gunnars. Virkjanakosturinn fór í kjölfarið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og gaf Skipulagsstofnun út álit sitt á framkvæmdinni í vor.

Gunnar Gaukur segir að alveg frá upphafi hafi verið ætlunin að orkan úr Hvalárvirkjun myndi nýtast að sem mestu leyti innan Vestfjarða. „Það var alltaf hugmyndin, alveg númer eitt, tvö og þrjú.“

Í byrjun sótti Vesturverk það fast að virkjunin yrði tengd yfir í Ísafjarðardjúp og þaðan til  Ísafjarðar og þar með inn á það svæði þar sem raforkuöryggið er hvað minnst. „Við börðumst fyrir því en við höfum ekkert um þetta að segja,“ segir Gunnar. Það er Landsnet sem tekur ákvarðanir um uppbyggingu flutningsnetsins. Og þessi leið var ekki í boði, að minnsta kosti ekki  á þessum tíma.

Bjartsýnn á tengingu vestur í Djúp

Gunnar Gaukur segir að Vesturverk hafi átt í óformlegum viðræðum við Landsnet um tengingar fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í um tvö ár. Nú segir hann styttast í að þær verði formlegar. Aðallega munu þær snúast um tenginguna frá Hvalárvirkjun og yfir í Ísafjarðardjúp eða að nýjum afhendingarstað raforku. Þaðan sem rafmagnið yrði flutt að öllum líkindum inn á Vesturlínu við Kollafjörð á Barðaströnd.  VesturVerk sótt formlega um tengingu virkjunarinnar í ágúst. Gunnar segist bjartsýnn á að þessi leið verði farin.

Enn er ekki búið að að selja orkuna sem aflað yrði í Hvalárvirkjun. „En við byggjum ekki virkjunina öðruvísi en að raforkan sé seld,“ segir Gunnar.  Að hans sögn hafa kaupendur þegar sýnt henni áhuga. Persónulega hugnast honum ekki að orkan verði nýtt til stóriðju. Hins vegar fari hann ekki með meirihluta í fyrirtækinu.

Ekki „boffs“ heyrst fyrr en nú

Á síðustu mánuðum hefur andstaða við virkjanaáformin aukist. Hún tók að magnast í kjölfar álits Skipulagsstofnunar þar sem áhrifin á alla þá þætti sem voru til skoðunar voru metin neikvæð eða verulega neikvæð.

Kemur sú harða gagnrýni á Hvalárvirkjun sem nú er uppi þér á óvart?

„Já, hún gerir það,“ segir Gunnar ákveðinn. „Verkefnið er hreinlega komið á lokametrana þegar menn fara af stað í gagnrýni sinni. Mér finnst að svona eigi kerfið ekki að vera. Þetta er alveg skelfilegt. Þessi gagnrýni hefði þurft að vera löngu komin fram.“

Hann segir að virkjanakosturinn hafi farið í gegnum rammaáætlun án þess að „boffs“ hafi heyrst í Náttúruverndarsamtökum Íslands sem hafi m.a. verið umsagnaraðili er gert var mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. „Þá fer Landvernd af stað fyrst núna, sem er alltof seint“.

Gunnar segir það sitt persónulega álit að niðurstaða Skipulagsstofnunar sé óréttlát og setur spurningamerki við vinnubrögð stofnunarinnar.

Stöðuvötnin á víðernum Vestfjarða.
Stöðuvötnin á víðernum Vestfjarða. mbl.is/Golli

 Hann segir að allir umsagnaraðilar, faglegar stofnanir á sínu sviði, hafi verið sammála um þær vægiseinkunnir á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem Vesturverk komst að í frummatsskýrslu sinni. „Svo fer þetta inn á borð hjá Skipulagsstofnun. Líklega hjá einum starfsmanni. Og hann færir til vægiseinkunnirnar sem lögboðnir umsagnaraðilar hafa samþykkt og virkjunarkosturinn fær lakari útkomu úr matinu fyrir bragðið. Ég bara spyr: Er þetta hans prívat og persónulega skoðun? Eða er þetta skoðun Skipulagsstofnunar?“

Gunnar segir að ef skýrslan hafi verið rýnd rækilega innan stofnunarinnar af fleiri starfsmönnum hefðu þeir skrifað undir hana. 

Þrjár aðrar virkjanir á teikniborði VesturVerks

Gert var ráð fyrir Hvalárvirkjun í aðalskipulagi Árneshrepps sem var staðfest árið 2014. Hins vegar hafa áformin breyst nokkuð og því þarf að breyta skipulaginu aftur hvað þetta varðar. Tillaga þar um verður að sögn Gunnars lögð fram í byrjun næsta árs. Fái skipulagsbreytingar sem til þarf samþykki hreppsnefndar verður sótt um framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni. Þá á línulögnin, hvernig sem hún verður, eftir að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Einnig þarf að liggja fyrir samþykkt á breytingum á skipulagi vegna hennar og að lokum þarf að leita samþykktar á framkvæmdaleyfi.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Vesturverk er með þrjár aðrar virkjanir á Vestfjörðum á teikniborðinu. Sú fyrsta, Skúfnavatnavirkjun, er rétt undir 10 MW og þarf því ekki að fara til meðferðar hjá verkaefnastjórn rammaáætlunar. Hinar tvær eru stærri og þarfnast meðferðar í rammaáætlun: Hvanneyrardalsvirkjun í botni Ísafjarðar og Hesta- og Skötufjarðarvirkjun. „Þessar tvær síðarnefndu eru mjög skammt á veg komnar og verða því ekki að veruleika í náinni framtíð.“

Gunnar er sannfærður um að fáum árum eftir að Hvalárvirkjun yrði gangsett yrði orkan notuð að mest öllu leyti innan Vestfjarða. Nú þegar vanti inn á Vestfirði um 160 gígavattstundir á ári sem er um helmingur af framleiðslugetu virkjunarinnar. Verði áframhaldandi uppbygging í sjókvíaeldi þá er áætluð töluverð fjölgun á Vestfjörðum, að minnsta kosti um 900 manns við Djúp auk fjölgunar á suðurfjörðunum þá þurfi t.d. seiðaeldisstöðvar töluverða orku. Sömu sögu sé að segja um fleiri fyrirtæki sem áhugi er á að byggja upp í fjórðungnum og má nefna kalkþörungaverksmiðju í Súðavík sem dæmi. Fólksfjölgun muni fylgja þessum hugmyndum, gangi þær eftir. „Ef þetta kemur allt til þá er orkan úr Hvalárvirkjun öll farin í þessa uppbyggingu.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is