Brúin formlega opnuð 60 árum síðar

Séra Kristján Valur Ingólfsson og Unnur Malín Sigurðardóttir fléttuðu töluðu …
Séra Kristján Valur Ingólfsson og Unnur Malín Sigurðardóttir fléttuðu töluðu máli og tónlist saman við tendrun kyndla. Ljósmynd/Páll M. Skúlason

Hvítárbrú hjá Iðu í Bláskógabyggð var opnuð formlega í dag. 60 ár eru hins vegar frá því að opnað var fyrir umferð um brúna. „Hún var aldrei formlega opnuð. Bílum var bara hleypt um hana 12. desember 1957 og ekkert gert svo meira með það. Við grófum það upp og fannst það ótækt,“ segir Páll M. Skúlason, íbúi á svæðinu og einn skipuleggjandi viðburðarins, í samtali við mbl.is.

Um 300 gestir stóðu sitt hvoru megin við brúarstólpana á …
Um 300 gestir stóðu sitt hvoru megin við brúarstólpana á meðan formlega opnunin fór fram. Ljósmynd/Páll M. Skúlason

Opnunin fór fram í nokkurs konar gjörningi þar sem kyndlar komu við sögu. „Okkur fannst stórgóð hugmynd að slá opnuninni saman við það að íbúarnir á svæðinu hafa verið að safna fyrir nýrri ljósakeðju á brúna og hún var líka tekin í notkun í dag,“ segir Páll. Ljósakeðjunni var komið fyrir á brúarstrengunum, en íbúar í Skálholtssókn hafa safnað fyrir henni og fengið til þess rausnarlega styrki.

Gjörningurinn fór þannig fram að Ásta Skúladóttir sem hefur búið í Laugarási frá fæðingu, eða í 70 ár og Guðmundur Ingólfsson sem hefur búið á Iðu, hinumegin árinnar frá fæðingu, einnig í 70 ár mættust með kyndla á brúnni.

„Þau byrjuðu hvort frá sínum enda og mættust loks á miðri brú. Þar með telst brúin vera formlega opnuð. Í þann mund er þau mættust og hófu kyndla sína á loft voru ljósin á glænýrri ljósakeðju tendruð,“ segir Páll. 

Dásemdar veður var í Bláskógabyggð í dag og telur Páll að tæplega 300 manns hafi verið samankomnir við opnunina sem fram fór í ljósaskiptunum. „Þetta var alveg óhemju rómantískt,“ segir Páll.

Ásta Skúladóttir frá Laugarási og Guðmundur Ingólfsson frá Iðu. Þau …
Ásta Skúladóttir frá Laugarási og Guðmundur Ingólfsson frá Iðu. Þau hafa verið búsett sitt hvoru megin við ána í 70 ár. Þau mættust með kyndla á brúnni og opnuðu hana þar með formlega. Ljósmynd/Páll M. Skúlason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert