Einn látinn laus í Skáksambandmálinu

Landsréttur felldi í dag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem …
Landsréttur felldi í dag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um aðild að inn­flutn­ingi fíkni­efna í send­ingu sem merkt var Skák­sam­bandi Íslands. Einn maður er nú enn í haldi vegna málsins. mbl.is/Arnar Þór

Landsréttur felldi í dag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um aðild að inn­flutn­ingi fíkni­efna í send­ingu sem merkt var Skák­sam­bandi Íslands. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Alls hafa fjórir menn setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn málsins. Tveimur þeirra var sleppt er nokkuð var liðið á rannsóknina og sá þriðji var látinn laus í dag.

Áður hefur verið greint frá því að Sig­urður Krist­ins­son, eig­inmaður Sunnu El­viru Þor­kels­dótt­ur sem hef­ur legið lömuð á sjúkra­húsi í Malaga und­an­far­in mánuð, hefði verið handtekinn við komuna til Íslands grunaður um aðild að málinu. Var hann úr­sk­urðaður í fjög­urra vikna gæslu­v­arðhald á grund­velli al­manna­hags­muna 7. fe­brú­ar í tengslum við rannsókn málsins.

Margeir segist ekki gefa upp hver það sé sem enn sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, en segir þó að gæsluvarðhald yfir þeim einstaklingi renni út þann 7. mars.

Spurður hvernig rannsókn gangi segir hann málinu miða áfram. „Við erum núna að bíða að okkur berist gögn vegna rannsóknarinnar að utan og svo tökum við stöðuna eftir það,“ segir Margeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert