„Nánast útilokað að Haukur sé á lífi“

Kúrdar virðast hafa staðfest að Haukur hafi fallið í Sýrlandi.
Kúrdar virðast hafa staðfest að Haukur hafi fallið í Sýrlandi. Skjáskot

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, sem talinn er hafa fallið í átökum við tyrkneska herinn í Afrin-héraði þann 24. febrúar síðastliðinn, þar sem hann barðist með Varnarsveitum Kúrda, hitti í dag sendinefnd International Freedom Batallion (IFB) í Glasgow.

Hún greinir frá fundinum á bloggsíðu sinni, en þar kemur fram að nefndin hafi ekki haft miklar upplýsingar til umfram þær sem fjölskyldan hafði. Staðsetning árásinnar var þó staðfest.

„Haukur féll í skotárás úr lofti en þau gátu þó bætt því við að loftsprengjum var einnig varpað á svæðið sem er núna undir stjórn Tyrkja. Haukur féll þar ásamt tveimur öðrum eins og fram hefur komið. Þrír menn fóru síðar inn á svæðið til að reyna að ná í líkin. Þeir særðust og eru nú látnir og þegar búið að birta píslarvottaplaköt af þeim. Mér finnst það vera næg staðfesting á því að það sé nánast útilokað að Haukur sé á lífi.“

Eva segir IFB ekki vita hvort Tyrkir hafi varveitt lík Hauks eða hvort það er enn í rústunum. Nefndin hafi þó staðfest að ef Tyrkir væru með líkið væri ekki ólíklegt að þeir myndu skiptast á líkum við YPG.

„Það er útilokað að segja til um hvort við fáum líkið nokkurntíma en þau lofa því að við fáum dótið hans, segjast samt ekki hafa hugmynd um hvenær verði hægt að koma því til okkar.“

Haukur vakti meðal ann­ars at­hygli hér á landi fyr­ir að klifra upp á þak Alþing­is­húss­ins í búsáhalda­bylt­ing­unni árið 2008 og draga Bón­us­fána að húni. Var hann hand­tek­inn tveim­ur vik­um seinna vegna sekt­ar sem hann hafði fengið árið 2005 og vakti það mikla reiði. Fjöl­mennti fólk fyr­ir utan lög­reglu­stöðina á Hverf­is­götu og var hann lát­inn laus eft­ir að sekt hans hafði verið greidd af ón­end­um manni.

Þá var Hauk­ur um tíma virk­ur í um­hverf­is­vernd­ar­sam­tök­un­um Sa­ving Ice­land og síðar með sam­tök­un­um No bor­ders, en þau hafa bar­ist fyr­ir rétt­ind­um flótta­fólks og hæl­is­leit­enda. Kom hann meðal ann­ars að mál­um hæl­is­leit­and­ans Tony Omos og Paul Ramses. Í máli Ramses braust Hauk­ur í fé­lagi við ann­an mann inn á Kefla­vík­ur­flug­völl og stöðvaði tíma­bundið för flug­vél­ar­inn­ar sem Ramses var um borð í.

Hauk­ur var einnig einn þeirra sem lokuðu veg­in­um að Hell­is­heiðavirkj­un í júlí 2007 í mót­mæla­skyni við bygg­ingu virkj­un­ar­inn­ar. Var hann þá dæmd­ur ásamt móður sinni og sex öðrum fyr­ir brot á alls­herj­ar­reglu með að hafa ekki farið að fyr­ir­mæl­um lög­reglu.

Sam­kvæmt þeim upp­lýs­ing­um sem birt­ust í frétt tyrk­nesks miðils sem sagði fyrst frá mál­inu fór Hauk­ur til Sýr­lands með liðsmönn­um RUIS hreyf­ing­ar­inn­ar, en það eru hernaðarleg an­arkista­sam­tök sem voru stofnuð árið 2015 og sam­an­standa aðallega af grísk­um sjálf­boðaliðum sem hafa stutt Kúrda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert