Ekki fleiri en neyslan miklu meiri

Unglingar gera sér oft enga grein fyrir áhættunni sem fylgir …
Unglingar gera sér oft enga grein fyrir áhættunni sem fylgir kannabisreykingum. AFP

Ekkert bendir til þess að fleiri unglingar séu að prófa sig áfram í kannabisneyslu á Íslandi en áður en ungmennin sem neyta kannabis neyta þess margfalt oftar en áður. Á sama tíma fækkar þeim sem neyta áfengis og þau nota einnig minna af áfengi en áður. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í vísindagrein þeirra Ársæls Arnarssonar, prófessors við menntavísindasvið Háskóla Íslands, Gísla Kort Kristóferssonar, lektors við heil­brigðis­vís­inda­svið Há­skól­ans á Ak­ur­eyri og Þórodds Bjarnasonar prófessors í félagsfræði við HA. Greinin birtist í tímaritinu Drug and Alcahol Review og byggir á íslenskum gögnum úr evrópsku vímuefnarannsókninni (ESPAD). Þar kemur einnig fram að þau ungmenni sem oftast nota áfengi eru oft stórnotendur kannabisefna. 

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Rannsóknin er lögð fyrir á fjögurra ára fresti og er öllum tíundu bekkingum á landinu boðin þátttaka. 

Fjöldi rannsókna á Íslandi hefur sýnt að hlutfall unglinga sem drekka ekki áfengi hefur hækkað mikið á undanförnum áratugum. Þessi þróun er reyndar alls ekki einskorðuð við Ísland heldur sést víða annars staðar. Á Íslandi hófst þessi þróun hins vegar fyrr en í öðrum löndum og hefur hlutfall þeirra unglinga í tíunda bekk sem aldrei hafa smakkað áfengi hækkað úr 21% árið 1995 í 66% árið 2015.

Þannig hefur staða íslenskra unglinga í samanburði við jafnaldra sína í öðrum Evrópulöndum sem taka þátt í rannsókninni, breyst úr því að vera nálægt meðaltali yfir í að verma hið eftirsótta botnsæti á listanum, það er að hvergi eru jafn fáir unglingar sem hafa neytt áfengis og á Íslandi af þeim ríkjum sem taka þátt í rannsókninni.

Áfengisneysla unglinga hefur ekki aðeins breyst þannig að þeim sem aldrei hafa bragðað vín hafi fjölgað, heldur hefur þeim sem hafa mjög oft drukkið áfengi fækkað mjög. Árið 1995 sögðust 14% unglinga hafa drukkið áfengi 40 sinnum eða oftar. Árið 2015 var þessi tala 3%.

„Við sem erum að kynna þessar rannsóknir fáum oft þær mótbárur að það geti vel verið að áfengisneyslan hafi minnkað en það sé vegna þess að kannabisneysla unglinga hafi aukist á móti,“ segir Ársæll.

Ef skoðaður er fjöldi þeirra unglinga sem hefur aldrei prófað kannabis er ekki hægt að segja að fleiri unglingar séu nú að prófa sig áfram í kannabisneyslu. Þvert á móti hefur þeim fjölgað sem aldrei hafa prófað, segir hann. 

Árið 1995 sögðust 90% unglinga aldrei hafa prófað kannabis en árið 2015 stóð talan í 92%. Hins vegar hefur orðið merkjanleg aukning meðal þeirra unglinga sem reykja kannabis oft.

Miklu fleiri ungmenni á Íslandi eru stórnotendur á kannabis en …
Miklu fleiri ungmenni á Íslandi eru stórnotendur á kannabis en áður. AFP

Árið 1995 sögðust aðeins 0,7% unglinga hafa reykt kannabis 40 sinnum eða oftar en tuttugu árum seinna hafði þetta hlutfall rúmlega þrefaldast. Með öðrum orðum, segir Ársæll, það voru ekkert fleiri að prófa kannabis en áður. En neyslan er hins vegar miklu meiri en áður hjá þeim sem eru að nota kannabis. Af kannski fjögur þúsund 15 ára unglingum eru kannski um 120 þeirra í þungri kannabis neyslu. 

Þá sýnir samanburður við önnur Evrópulönd sem taka þátt í ESPAD-rannsókninni að af þeim sem á annað borð nota kannabis þá reykja íslensku unglingarnir oftast. Einnig að þeir sem oftast nota áfengi eru einnig oftar stórnotendur af kannabis og hefur þetta hlutfall hækkað á síðustu árum, segir í greininni. Lítill munur er á milli kynjanna, fimmtán ára stúlkur eru alveg jafn líklegar til þess að reykja kannabis og strákar á sama aldri.

Hann segir að það sé einnig áhugavert að skoða hvað ungmennin sjálf hafa að segja um aðgengi að áfengi og kannabis.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Í ESPAD-rannsókninni hafa unglingarnir einnig verið spurðir um það hversu auðvelt það sé fyrir þá að ná í vímuefni. Niðurstöðurnar sýna að unglingar í dag telja miklu erfiðara að ná í áfengi heldur en það var fyrir jafnaldra þeirra fyrir tuttugu árum. Líklegast verður að telja að foreldrar og eldri skyldmenni séu mun tregari til að kaupa áfengi fyrir unglinga nú en áður.

Hins vegar hefur mat unglinganna á aðgengi að kannabis ekkert breyst á þessu tímabili þrátt fyrir að í opinberri umræðu heyrist oft að það sé ekkert vandamál fyrir þá að ná sér í kannabis, segir Ársæll.

„Þetta var kannski ekkert erfitt áður og ef þú vilt útvega þér kannabis eða áfengi þá getur þú það án erfiðleika. Hvort sem það er árið 1995 eða 2015,“ segir Ársæll.

Unglingar í dag telja að það sé miklu erfiðara að …
Unglingar í dag telja að það sé miklu erfiðara að verða sér úti um áfengi en það var fyrir jafnaldra þeirra fyrir tuttugu árum. AFP

Í grein þremenninganna kemur fram að svo virðist sem íslensk ungmenni geri sér litla grein fyrir þeirri hættu sem kannabis getur valdið á heilastarfsemi þeirra. „Þau eru mjög jákvæð gagnvart kannabis,“ segir Ársæll og bætir við að það sé hans tilfinning að áhrifin frá Bandaríkjunum skipti sköpum. Í amerískum sjónvarpsþáttum þykja kannabisreykingar mjög eðlilegur hluti af lífinu og markaðssetningin miðar að börnum. „Fullorðnir eru ekki sami markhópur og börnin þegar kemur að vímuefnum,“ segir Ársæll. 

Sá verndandi þáttur sem kemur sterkast fram í rannsókninni er hins vegar það hversu miklu betur foreldrar á Íslandi eru meðvitaðir um það hvar eða hvað unglingarnir þeirra eru að gera.

Eftirlit foreldra spáir mjög vel fyrir vímuefnanotkun unglinga og hefur aukist gríðarlega á þessum tuttugu árum. Til dæmis sögðu 12% unglinga árið 1995 að foreldrar þeirra vissu aldrei hvar þeir væru á kvöldin, en árið 2015 voru 2% þeirrar skoðunar. Alls sögðu 26% unglinga árið 1995 að foreldrar þeirra hefðu alltaf þessar upplýsingar, samanborið við 67% tuttugu árum seinna.

Þeir benda á það í greininni að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslensk heilbrigðisyfirvöld að taka á þessari stórnotkun á kannabis meðal ungmenna. Að beina sjónum sínum að þessum áhættuhópi og ná þeim fyrr meðal annars með forvörnum. 

Krakkar meta áhættu af þessu á allt annan hátt en fullorðnir. Þeir eru áhættusæknari og því mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um þá hættu sem börnin þeirra eru í. Kannski þarf að hjálpa foreldrum að greina merkin og gera þeim kleift að leita sér aðstoðar ef þeir verða varir við eitthvað óeðlilegt sé í gangi. Síðast en ekki síst þá verða foreldrar að setja skýrari mörk. Krakkar þurfa mörk enda ekki hægt að treysta því að börn á þessum aldri taki alltaf skynsamlegustu ákvörðunina, segir Ársæll. 

Greinin í heild

mbl.is