„Stórt og hápólitískt mál“

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Við vitum ekkert hvenær þessu þingi lýkur eða hvernig. Við tökum okkur bara þann tíma sem við þurfum til að ræða málin,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, um veiðigjaldamálið sem verður tekið til fyrstu umræðu af þremur á Alþingi á morgun.

„Þetta er þungt og erfitt mál þannig að það verður um nóg að tala.“

Oddný vill framlengja lögin um veiðigjald til áramóta þangað til nýtt frumvarp kemur inn, alveg eins og þingmálaskrá frá sjávarútvegsráðherra hafi gert ráð fyrir, í stað þess að samþykkja frumvarpið sem verður rætt á morgun. Því er ætlað að brúa bilið til áramóta.

„Það er engin ástæða til þess að lækka veiðigjöld heilt yfir. Það finnst mér ekki koma til greina,“ segir hún.

Oddný bætir við að stjórnarandstaðan geti ekki borið ábyrgð á því að stjórnarliðar hafi ekki treyst sér til að koma með lækkun veiðigjalda inn í þingið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

Aðspurð segir hún stjórnarandstöðuna ekki ætla sér að tefja málið. „Þetta er stórt og mikið mál og hápólitískt sem við þurfum góðan tíma til þess að fara yfir.“

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjár umræður verða um málið á Alþingi, auk þess sem atvinnuveganefnd fer yfir það. Einnig þarf að fara yfir breytingatillögur ef þær verða settar fram.

„Þetta tekur allt heilmikinn tíma. Svo eiga fleiri mál eftir að detta inn, fjármálaáætlunin og persónuverndarlögin og þau taka líka góðan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert