Of gott veður setur strik í reikninginn

Mótshaldarar þurfa að setja endamarkið hálfum sólarhring fyrr upp en …
Mótshaldarar þurfa að setja endamarkið hálfum sólarhring fyrr upp en til stóð þar sem hraðinn er meiri í keppninni en áður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er ekki oft sem of gott veður setur hlutina úr skorðum á Íslandi en mótshaldarar WOW Cyclothon-hjólreiðakeppninnar fengu óvænt að kenna á því þar sem of gott veður síðustu sólarhringa hefur gert það að verkum að hjólreiðamennirnir eru á undan áætlun.

Til stóð að endamark Cyclothonsins yrði sett upp í fyrramálið klukkan sex og var fyrirséð að fyrstu hjólreiðamennirnir kæmu í mark fljótlega upp úr því. Núna er aftur á móti útlit fyrir að Eiríkur Ingi Jóhannsson slái brautarmet einstaklinga og komi í mark um miðnætti. Þurftu mótshaldarar því að flýta uppsetningu endamarksins um hálfan sólarhring svo það yrði nú örugglega mark þegar Eiríkur kemur í mark.

Þrjú lið í tíu manna keppninni berjast nú um efstu þrjú sætin; Team Skoda, Sensa og TRI. Liðin komu langt á undan öðrum liðum til Egilsstaða, en flest liðin eru núna á milli Mývatns og Egilsstaða. Airport Direct, GÁP og Harðkjarna berjast um efstu þrjú sætin í flokki fjögurra manna liða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert