Ekkert samráð haft við heimaljósmæður

Arney segir samninginn við Sjúkratryggingar Íslands ekki ná yfir aukna …
Arney segir samninginn við Sjúkratryggingar Íslands ekki ná yfir aukna þjónustu sem gert sé ráð fyrir. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert samráð var haft við sjálfstætt starfandi ljósmæður sem sinna heimaþjónustu, við gerð aðgerðaáætlunar Landspítalans vegna kjaradeilu ljósmæðra. Einn liður í áætluninni er að útskrifa konur beint af fæðingarvakt í heimaþjónustu. Heimaþjónustuljósmæður, sem starfa utan Landspítalans, heyrðu fyrst af málinu á Facebook eða í fréttum.

Arney Þórarinsdóttir, sjálfstætt starfandi ljósmóðir og framkvæmdastjóri Bjarkarinnar, segir ljósmæður sem sinna heimaþjónustu starfa eftir rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Sá samningur nær ekki yfir þá auknu þjónustu sem aðgerðaráætlunin gerir ráð fyrir að heimaþjónustuljósmæður sinni.

„Það eru hátt í 100 ljósmæður á þessum samningi og við höfum ekki fengið neitt formlegt í hendurnar um að við eigum að bregðast einhvern veginn við,“ segir Arney í samtali við mbl.is.

Aðgerðaáætlun Landspítalans, sem tók gildi 1. júlí, hafi því komið heimaljósmæðrum mikið á óvart. „Frekar mikið. Ljósmæður voru frekar undrandi á þessu. Fólk veltir fyrir sér hvernig þetta eigi yfir höfuð að ganga upp. Rammasamningurinn er bara eins og hann er. Hann er gerir ekki ráð fyrir því að mikill hluti kvenna sé að útskrifast nokkrum klukkutímum eftir fæðingu. Við fylgjum bara samningnum og þeim faglegu leiðbeiningum sem eru um hann. Meira getum við ekki gert nema það komi annars staðar frá einhver fyrirmæli um breytingar.“

Arney sér það því ekki sem lausn sem getur gengið upp að heimaljósmæður taki fyrr við í ferlinu. Ekki að öllu óbreyttu.

Ekki geta allar konur útskrifast snemma

Hún segir júlí vera erfiðasta mánuðinn vegna sumarfría og það setji alltaf strik í reikninginn í venjulegu árferði. Hvað þá núna, þegar ástandið á Landspítalanum er orðin jafnalvarlegt og raun ber vitni. Uppsagnir 12 ljósmæðra tóku gildi nú um mánaðamótin og fleiri uppsagnir hafa borist. Þá mun yfirvinnubann hefjast um miðjan mánuðinn.

„Þetta er ekki auðveldasti mánuðurinn til að útvega heimaþjónustu. Það hefur gengið upp, en það hefur ekki verið auðvelt. Auðvitað sinnum við okkar skjólstæðingum eins vel og hægt er. Það er einhver hluti kvenna sem getur farið mjög fljótt heim eftir fæðingu, en okkar vitjanir duga bara ákveðið,“ útskýrir hún og bendir á að konur sem hingað til hafi útskrifast snemma hafi treyst sér til þess og kosið það sjálfar.

„Það hefur verið þeirra val. Það er annað en þegar kona er útskrifuð af því það er ekki pláss fyrir hana. Sú kona þarf kannski meiri þjónustu.“

Þá bendir Arney einnig á að spítalinn geti ekki útskrifað konu nema búið sé að útvega henni ljósmóður sem geti sinnt eins og þarf. Stundum tefjist útskrift af því ljósmóðir hefur ekki fundist.

„Spítalinn getur ekki sett einhver tímamörk á það hve fljótt við eigum að fara í vitjun til konunnar. Ljósmæður sinna þessu aðallega í dagvinnu og eitthvað á kvöldin. Það er ekki hægt að ætlast til að við förum að nóttu til í vitjun, ekki nema það sé bráðavitjun.“

Þetta á að vera stórkostlegur tími

Arney setur líka spurningamerki við heilsugæslan eigi að taka fyrr við, líkt og fram kemur í aðgerðaráætluninni. „Yfirleitt tekur ungbarnaverndin við tíu dögum eða tveimur vikum eftir fæðingu. Það þarf að vera töluvert fyrr ef þetta verður svona.“

Hún segist finna fyrir miklu óöryggi hjá verðandi mæðrum vegna stöðunnar sem upp er komin, en fæðingarþjónusta Bjarkarinnar hefur fengið mörg símtöl frá uggandi foreldrum. „Fólk er að spyrjast fyrir, leita til okkar og hefur áhyggjur af þessu. Það er greinilega mikill kvíði hjá verðandi foreldrum. Þetta er sorgleg staða. Þetta á að vera stórkostlegur tími, ein stærstu tímamót í lífi hvers og eins, þannig það er sorglegt að svona ástand hafi þessi áhrif. Það er líka kvíðavekjandi að eignast barn og þetta er ekki á það bætandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert