Býðst að ljúka málinu með sektargreiðslu

Ljósmynd/Páll Gíslason

Erlendu ferðalöngunum sem festu bíla sína í drullu eftir utanvegaakstur í gær býðst nú að ljúka málinu með greiðslu sektar, segir Elís Kjartansson lögreglufulltrúi í samtali við mbl.is.

Mennirnir voru í gær boðaðir á lögreglustöðina á Selfossi til að gefa sig fram við lögreglu vegna málsins. „Við eigum von á þessum mönnum í hús í dag,“ segir Elís.

„Þeir eru sannanlega sekir um að fara inn á lokaðan slóða og valda einhverskonar náttúruspjöllum. Það er alveg upp á borðum og nú er boltinn hjá þeim að klára þetta og ljúka því,“ bætir Elís við.

Elís gat ekki gefið upp hversu háa upphæð mennirnir þurfa að greiða en það er í skoðun hjá lögreglu og fulltrúa ákæruvaldsins á þessari stundu.

Mennirnir eru taldir hafa gerst sekir um brot á umferðarlögum með því að virða ekki merki um lokanir og brot á lögum um náttúruvernd með því að valda spjöllum á náttúru.

Samkvæmt heimildum fréttastofu getur sektargreiðsla fyrir slíkt brot verið á bilinu 50-500 þúsund krónur eftir umfangi náttúruspjallanna eru. Hins vegar ef brotin teljast alvarleg í skilningi laga um náttúruvernd er lögbundið lágmark sektar 350 þúsund krónur.

Ljósmynd/Páll Gíslason

Kaldar kveðjur frá Íslandi

Útlit er fyrir að mennirnir hafi verið hér á landi á vegum frönsku ferðaskrifstofunnar Imagine 4x4 en jeppar þeirra voru vel merktir ferðaskrifstofunni. 

Íslendingar og öðrum sem er umhugað um íslenska náttúru vanda fyrirtækinu ekki kveðjurnar á Facebook. Einn maður kallar til dæmis eftir því að fyrirtækinu verði meinað að skipuleggja ferðir á Íslandi í framtíðinni.







mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert