Vigdís segir SEA vera dótakassa

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur sent SEA formlega fyrirspurn um …
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur sent SEA formlega fyrirspurn um hvaða fleiri verkefni eru á borði skrifstofunnar og á hún von á að fá svar við henni á næsta borgarráðsfundi. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég hef kallað þessa skrifstofu dótakassann því þarna eru ýmis verkefni, eins og bragginn, sem ættu heima hjá umhverfis- og skipulagssviði,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í samtali  við mbl.is, um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar (SEA).

Skrifstofan er staðsett í ráðhúsinu og var stofnuð árið 2012 þegar til­lög­ur um ein­föld­un á stjórn­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar voru samþykktar í borgarstjórn. „Þetta var raunverulega alltaf hugmynd og hugarfóstur Dags, að ráða yfir þessari skrifstofu og velja sér verkefni,“ segir Vigdís.

Hrólf­ur Jóns­son, fyrr­ver­andi skrif­stofu­stjóri SEA, sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hafi aldrei nokkurn tíma rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um uppbygginguna við braggann í Nauthólsvík.

Hrólfur lét af störfum í apríl en sagði í viðtali á Morgunútvarpinu á Rás 2 í gær að það hafi verið á sinni ábyrgð að hafa ekki stigið inn þegar hluta af framúr­keyrslu, 120 millj­ón­um króna, var eytt í fram­kvæmd­ir við bragg­ann í Naut­hóls­vík án þess að heim­ild var fyr­ir því.

Vigdís gefur lítið fyrir skýringar Hrólfs og segir að þar sem skrifstofan er staðsett í ráðhúsinu hljóti skrifstofustjórinn að hafa unnið náið með borgarstjóra. Þá bendir hún á að skrifstofustjóri SEA, borgarlögmaður og borgarritari sitji alla borgarráðsfundi. „Þeir heyra allt sem fer fram, heyra alla pólitíkina, heyra öll vandamálin og leggja fram mál. Það eitt og sér gerir þetta svo ótrúverðugt með það sem Hrólfur segir. Ef Dagur hefði ekki heyrt þetta á skrifstofu ráðhússins hefði hann átt að heyra þetta þarna,“ segir Vigdís.

Vill fá upplýsingar um öll verkefni SEA

Vigdís hefur sent SEA formlega fyrirspurn um hvaða fleiri verkefni eru á borði skrifstofunnar og á hún von á að fá svar við henni á næsta borgarráðsfundi. „Ég vil fá að sjá öll verkefni þarna inni og hvað er verið að sýsla með og hvort að vinnubrögðin séu öll með þessum hætti á þessum verkefni sem þarna eru inni.“

Vigdís segir það enga lausn á braggamálinu að fyrrverandi skrifstofustjóri stígi fram og lýsi yfir ábyrgð. „Það er barnalegt að draga fram fyrrverandi starfsmann. Hann var á vettvangi og skrifstofustjóri en það eru engin gild rök fyrir því að hann sé að taka á sig þessa sök. Hann getur það ekki, þessi skrifstofa heyrir undir borgarstjóra og borgarritara og það er ómögulegt annað en að þarna hafa verið mikil samskipti á milli.“

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir við húsin þrjú á Nauthólsvegi 100 …
Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir við húsin þrjú á Nauthólsvegi 100 var 146-158 milljónir. Framkvæmdirnar hingað til hafa hins vegar kostað 415 milljónir. mbl.is/Hari

Athugun borgarlögmanns „aumt yfirklór“

At­hug­un embætt­is borg­ar­lög­manns, sem var birt í gær, 14 mánuðum eftir að óskað var eftir því, leiddi í ljós að inn­kauparegl­ur borg­ar­inn­ar voru brotn­ar við fram­kvæmd­ina. Ekki er þó um lög­brot að ræða, þar sem verk­efnið var ekki útboðsskylt, sam­kvæmt álit­inu.

Vigdís segir að seinagangur í vinnslu athugunarinnar sé enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu Reykjavíkur. Hún ætlar hins vegar að gefa sér helgina til að fara yfir athugunina. „Mér finnst þetta álit aumt yfirklór, það hefði verið hægt að skila þessu áliti fyrir hádegi daginn sem var beðið um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert