Krefja Geymslur um tíu milljónir

Húsnæðið var í rústum eftir eldsvoðann.
Húsnæðið var í rústum eftir eldsvoðann. mbl.is/RAX

Tvö mál verða þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn þar sem eigendur Geymslna í Miðhrauni eru krafðir um annars vegar níu milljónir króna í bætur og hins vegar um 1,2 milljónir.

Að sögn Guðna Á. Haraldssonar hjá Löggarði, lögmanns 45 manna hóps sem hefur leitað réttar síns eftir að hafa misst eigur sínar í eldsvoðanum Miðhrauni í apríl, eru málin ólík í eðli sínu. Þeim er ætlað að endurspegla þau mál sem eru að baki öllum þeim sem hafa krafist skaðabóta.

Hann reiknar með því að eitt til tvö mál muni bætast við og að látið verði reyna á þau fyrir dómi, hugsanlega eftir hálfan mánuð.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Neita öllum kröfum

Fyrir rúmum mánuði sendi Guðni bréf til lögmanns Geymslna þar sem umbjóðendur hans kröfðust þess að þeim yrðu afhentir þeir munir sem þeir geymdu í húsnæðinu. „Ef umbjóðandi yðar getur orðið við kröfum um­bjóðenda minna þá fagna þeir því. Ef ekki þá óska þeir viðræðna við hann um greiðslu bóta sem samsvara því tjóni og þeim kostnaði sem þeir hafa orðið fyrir. Ef ekki þá munu þeir leita réttar síns fyrir dómstólum,“ sagði í bréfinu.

Aðspurður segir Guðni að forsvarsmenn Geymslna hafi neitað öllum kröfum og þeir telji málið sér óviðkomandi en Geymslur er dótturfélag Securitas. Hann segir viðbrögð fyrirtækisins alls ekki hafa komið sér á óvart. „Þeir hafa frá upphafi komið svona fram. Þeir beindu viðskiptavinum sínum strax til sinna tryggingafélaga, í staðinn fyrir að segja: „Við erum tryggðir“,“ segir hann og nefnir að fyrirtækið hafi ekki verið tryggt fyrir tjóninu. Það hafi undanskilið í sínum tryggingum tjón vegna eldsvoða.

„Frá fyrsta degi er verið að reyna að koma sér undan öllu og það er ekki mikill trúnaður í þessu máli af þeirra hálfu. Þeir taka enga sök á sig.“

Slökkviliðsmenn glímdu við mikinn eld í húsnæði Icewear og Geymslna …
Slökkviliðsmenn glímdu við mikinn eld í húsnæði Icewear og Geymslna í Miðhrauni. mbl.is/Eggert

Neytendaréttarmál í grunninn

Lögmaðurinn telur að Geymslur muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hafna kröfunum fyrir héraðsdómi. „Í grunninn er þetta neytendaréttarmál. Þarna eru neytendur sem eiga viðskipti við aðila sem selur þjónustu sína. Honum ber að sjá til þess að hann geti skilað svona eignum til baka ef hann tekur við þeim, það er svo einfalt,“ segir hann og nefnir í þessu samhengi neytendaréttartilskipun Evrópuráðsins.

„Þessum aðilum ber að tryggja sig. Þeir geta ekkert skýlt sér á bak við það að svona hlutir eyðileggist í eldsvoða, sem er ekki viðskiptavinum þeirra á neinn hátt viðkomandi, heldur miklu frekar þeim. Það er þeirra húsnæði sem eyðileggst í eldsvoðanum og það eru þeir sem bera ábyrgð á því, ekki viðskiptamennirnir.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Munu vefengja verðmætin

Að sögn Guðna hafa tveir dómar nýverið fallið í svipuðum málum í héraði þar sem fallist hefur verið á rétt neytenda. Hann reiknar með því að Geymslur muni reyna að vefengja verðmæti munanna sem voru geymdir þar en segist ekki hafa áhyggjur af því. Dómkvaddir matsmenn verði fengnir til að meta það.

Teljið þið ykkur vera með gott mál í höndunum?

„Við ætlum bara að fylgja þessu eftir af fullri hörku. Þarna er réttur einstaklinganna til staðar og við teljum að þau hafi mjög góðan málsstað.“

Frá Miðhrauni.
Frá Miðhrauni. mbl.is/RAX
mbl.is