Flókið að rífa húsið vegna asbests

Húsið verður rifið þegar leyfi hefur fengist til þess.
Húsið verður rifið þegar leyfi hefur fengist til þess. mbl.is/Eggert

Flókið mál verður að rífa húsið sem brann á Kirkjuvegi á Selfossi í gær vegna þess hversu mikið asbest var í því. Ekki má rífa húsið fyrr en heimild hefur fengist frá bæði Heilbrigðis- og Vinnueftirlitinu. Þetta segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu.

Mjög stífar reglur gilda um meðhöndlun asbests, sem er lífshættulegt efni, og finna þarf sérmenntaða menn sem mega sinna slíku starfi, að sögn Péturs.

„Við höfum ekki lent í þessu síðan ég byrjaði í þessu starfi að það séu kallaðir til sér menn vegna þessa, þannig að þetta er nýtt ferli fyrir mér,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Sprengingarnar af völdum asbests

Hann nefnir að asbestplötur hafi verið á veggjum hússins fyrir innan járnklæðninguna en húsið var byggt á milli áranna 1940 og 1950. Hann bendir á að asbest sé ekki eldfimt efni en sprengingarnar sem urðu í húsinu þegar slökkviliðið var komið á vettvang hafi að öllum líkindum verið af völdum asbestsins. „Þær voru býsna öflugar sumar sem valda þá hættu fyrir reykkafarana og aðra sem nálægt eru,“ segir hann um sprengingarnar.

Pétur bætir við að einangrunarefni hússins, þar á meðal plast, sag og pappír, sem eru mjög eldfim, hafi líklega valdið þessum hraða bruna sem varð.

Slökkviliðsmenn á vettvangi.
Slökkviliðsmenn á vettvangi. mbl.is/Eggert

Slökkvistarfið hlýtur að hafa reynt mikið á mannskapinn?

„Já, það gerir það. Það reynir líka á menn andlega að geta ekki klárað verkið eins og menn vilja klára það. Þetta eru mjög erfið útköll fyrir viðbragðsaðila.“

Svokallaður viðrunarfundur var haldinn síðdegis í dag fyrir slökkviliðsmenn þar sem farið var yfir starf slökkviliðsins vegna eldsvoðans. Pétur útskýrði hvernig ákveðnar ákvarðanir eru teknar og menn gátu á móti greint frá sinni hlið málsins og komið með spurningar. „Þetta miðar að því að allir séu upplýstir og geti þá gengið sáttir frá verkinu. Ef eitthvað meira er að hjá mönnum og þeir finna eitthvað að í sinni sál þá komum við því að sjálfsögðu í farveg til fagaðila.“

mbl.is/Eggert

Ekkert er vitað um eldsupptökin, nema að talið er að þau hafi verið af mannavöldum. Lögreglan stýrir þeirri rannsókn. Pétur kveðst ekki vita hvenær ljóst verður um eldsupptökin. Senda þarf sýni til efnagreiningar og gæti það tekið einhvern tíma að fá niðurstöðu úr þeirri rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert