Eistneskt dagblað fjallar um ásakanirnar

Jón Baldvin og Lennart Meri árið 1991.
Jón Baldvin og Lennart Meri árið 1991. mbl.is/RAX

Eitt stærsta dagblað Eistlands, Eesti Päevaleht, fjallaði í gær um mál Jóns Baldvins Hannibalssonar og meinta kynferðislega áreitni hans gagnvart fjölda íslenskra kvenna. Eistneska þjóðin hefur miklar mætur á Jóni Baldvini, en hann var utanríkisráðherra Íslands þegar Ísland varð fyrst ríkja til þess að viðurkenna Eistland sem sjálfstætt ríki.

„Utanríkisráðherrann sem var fyrstur til að viðurkenna Eistland flæktur í Metoo-hneyksli á Íslandi,“ er fyrirsögn umfjöllunar Eesti Päevaleht. Þar er vísað til viðtalanna sem birtust í síðasta tölublaði Stundarinnar, þar sem fjórar konur greindu frá kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins, og þess minnst að Lennart Meri, fyrrverandi forseti Eistlands, hafi sætt hann heiðursmerki árið 1996.

Þá er rætt við Þóru Tómasdóttur blaðakonu sem fjallaði um vafasamar bréfaskriftir Jóns Baldvins til Guðrúnar Harðardóttur, systurdóttur Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í Nýju lífi árið 2012. Haft er eftir henni að að Jón Baldvin hafi augljóslega haft áhuga á unglingsstúlkum.

Meðal þess sem Jón Baldvin greindi Guðrúnu frá í bréfum sínum var samneyti hans við vændiskonur í Tallin eftir fund hans með Meri Eistlandsforseta árið 2001. Í umfjöllun Eesti Päevaleht er rætt við þáverandi starfsmanna- og skrifstofustjóra forsetans, Urmas Reinsalu, sem í dag gegnir stöðu dómsmálaráðherra í Eistlandi. Kveðst hann muna eftir Jóni Baldvini vegna þess sögulega hlutverks sem hann gegndi vegna viðurkenningu á sjálfstæði Eistlands, en segist ekki hafa átt við hann nein persónuleg samskipti. Man hann ekki eftir að hafa heyrt af slíku athæfi, sem Jón Baldvin lýsir í bréfi til Guðrúnar um heimsóknina til Tallin 2001.

Nemendur Tartú yfir engu að kvarta

Einnig er greint frá því að Jón Baldvin hafi verið gestakennari við Háskólann í Tartú um nokkurra mánaða skeið árið 2014, árið eftir að Háskóli Íslands vék frá ákvörðun sinni um að fá hann sem gestakennara við stjórnmálafræðideild skólans.

Eesti Päevaleht leitaði viðbragða frá stjórnendum Háskólans í Tartú sem sögðust ekki hafa vitað af hneykslismálinu á Íslandi. Þá staðfesti talsmaður skólans að enginn nemandi hafi lagt fram kvörtun vegna Jóns Baldvins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert