Lést eftir að brot kom á skipið

EF AVA var suður af Grænlandi er brot kom á …
EF AVA var suður af Grænlandi er brot kom á skipið. Ljósmynd/MarineTraffic.com

Skipstjóri eins af leiguskipum Eimskips lést nú í vikunni þegar skipið fékk á sig brotsjó suður af Grænlandi. Þetta staðfestir Elín Hjálmsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Eimskip, í samtali við mbl.is.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að haft hafi verið samband við Gæsluna þegar skipið var um 700 sjómílur frá Reykjavík. Ekki hafi hins vegar komið til þess að þyrla hafi verið kölluð til.

Erfitt var í sjóinn er atvikið átti sér stað aðfaranótt þriðjudagsins 29. janúar.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum þá kom brot á skipið með þeim afleiðingum að hann fellur og fær við það höfuðhögg og lætur lífið í kjölfarið,“ segir Elín. Skipstjórinn var af pólskum uppruna og var fæddur 1964.

„Hugur okkar allra starfsmanna Eimskips er með fjölskyldu mannsins og skipverjunum, bætir Elín við.

Skipið EF AVA var á leið frá Nýfundnalandi til Reykjavíkur þegar atvikið átti sér stað og er raunar enn á þeirri leið, en von er á því til hafnar í Reykjavík í kvöld. Elín segir tildrög slyssins verða í kjölfarið rannsökuð af viðeigandi aðilum og þá hafi útgerð skipsins kallað til aðila sem muni hlúa að áhöfninni er hún kemur í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert