Umræður til grundvallar launahækkunum

Kjararáð hækkaði laun 48 forstöðumanna ríkisstofnana skömmu áður en ráðið …
Kjararáð hækkaði laun 48 forstöðumanna ríkisstofnana skömmu áður en ráðið lét af störfum. Engan rökstuðning fyrir hækkununum er að finna í fundargerðum kjararáðs. Samsett mynd

Rökstuðning er ekki að finna í fundargerðum kjararáðs fyrir ákvörðun ráðsins að veita 48 forstöðumönnum ríkisstofnana launahækkun síðasta sumar. Í fundargerðum kjararáðs sem fjármálaráðuneytið hefur afhent mbl.is kemur eingöngu fram að „umræður“ hafi átt sér stað áður greint er frá úrskurði.

Ráðuneytið hyggst ekki afhenda fundargerðir eldri en frá árinu 2015.

Lög um kjararáð voru felld úr gildi 11. júní 2018 og var ráðinu gert að klára öll útistandandi mál fyrir 1. júlí það ár. Á fundi ráðsins 14. júní voru afgreiddar 48 beiðnir um endurskoðun launa sem sendar höfðu verið kjararáði á árunum 2016 og 2017.

Vakti athygli að í úrskurði sem birtur var á vef kjararáðs fylgdi enginn rökstuðningur, þrátt fyrir að slíkur rökstuðningur hafi áður fylgt úrskurðum kjararáðs.

Bað mbl.is fjármálaráðuneytið um allar fundargerðir kjararáðs 10. júlí, en í fundargerðunum sem mbl.is fékk sendar í dag er ekki að finna rökstuðning fyrir breytingum á launakjörum forstöðumannanna. Aðeins eru tilgreindar „umræður“, án þess að fram komi hvað hafi farið fram undir þeim lið á fundi kjararáðs þar sem umdeildir úrskurðir voru kveðnir upp.

Skjáskot

Úrskurðarnefnd upplýsingamála

Þegar mbl.is óskaði eftir fundargerðum kjararáðs síðasta sumar vísaði fjármálaráðuneytið á Þjóðskjalasafn og safnið á ráðuneytið. Blaðamaður annars fjölmiðils kærði 8. nóvember ákvörðun ráðuneytisins um að vísa frá beiðni er sneri að fundargerðunum til úrskurðarnefndar upplýsingamála.

Í febrúar birti nefndin úrskurð sinn, en þar sagði um ákvörðun ráðuneytisins hana „vera haldna efnislegum annmörkum sem að mati nefndarinnar væru svo verulegir að ekki yrði hjá því komist að fella hana úr gildi.“ Ráðuneytið hefur í dag afhent hluta fundargerða kjararáðs.

Afhenda ekki eldri fundargerðir

Ráðuneytið segir í tölvupósti til mbl.is í dag að um 617 fundargerðir sé að ræða frá því að kjararáð tók til starfa og að „stór hluti fundargerðanna [hafi] að geyma einhverjar upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sem ráðuneytinu ber að afmá áður en aðgangur er veittur að þeim. Slíkt kallar á að hvert skjal þarf að gaumgæfa og leggja þarf vinnu í að fjarlægja upplýsingar sem óheimilt er að láta af hendi,“ að því er segir í svarinu.

Þá áætlar fjármálaráðuneytið að í það minnsta 40 vinnustundum hafi verið eytt í yfirferð fundargerðanna til þessa og að mun fleiri vinnustunda væri þörf til að fara yfir fundargerðirnar allar.

„Að mati ráðuneytisins myndi sá tími sem það útheimti að verða að fullu við upplýsingabeiðninni hafa slík áhrif á lögbundin störf ráðuneytisins að ráðuneytinu sé það ekki fært. Beiðninni er því synjað að því er varðar fundargerðir eldri en frá 2015,“ segir í tölvupósti ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert