Hafa sex daga til að bregðast við álitinu

Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð …
Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, auk Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, fyrrverandi þingmanna Flokks fólksins. Samsett mynd

Sex þingmenn Miðflokksins sem fjallað er um í áliti siðanefnd­ar um Klaust­urs­málið hafa frest til 2. apríl til að bregðast við álitinu. Álitið lýtur að ummælum sex þingmanna á veitingastofunni Klaustur bar 20. nóvember 2018 og mögulegu broti þeirra á siðareglum fyrir alþingismenn.

Álitið var birt fyrir mistök á vef Alþingis í gærkvöldi og var tekið út af vef Alþingis skömmu síðar. Nú hefur það aftur verið birt í heild sinni. Í áliti nefnd­ar­inn­ar sem Stein­unn Þóra Árnadóttir og Har­ald­ur Bene­dikts­son, sem bæði gegna hlut­verki vara­for­seta á Alþingi, kölluðu eft­ir kem­ur m.a. fram að sam­talið sem átti sér stað á barn­um Klaustri 20. nóv­em­ber milli sex þing­manna, og náðist á upp­töku, geti ekki tal­ist einka­sam­tal.

Þing­menn Miðflokks­ins gagn­rýndu birt­ing­una harðlega og segja hana ganga gegn stjórn­sýslu­lög­um en álitið var birt kl. 19, sex mín­út­um seinna en Stein­unni barst póst­ur­ þar sem þess var óskað að birt­ingu álits­ins yrði frestað.

Á vef Alþingis kemur fram að forsætisnefnd, skipuð 7. og 8. varaforseta, taki ákvörðun um frekara framhald málsins. Fjórir þingmenn Miðflokksins sögðu í yfirlýsingu í gærkvöldi að fyr­ir liggi „nýj­ar og veiga­mikl­ar upp­lýs­ing­ar sem sýna að mat siðanefnd­ar­inn­ar væri byggt á röng­um for­send­um“. Ekki liggur fyrir hvað felst í þessum upplýsingum.

Á vef Alþingis er jafnframt greint frá því að nefndarmenn í siðanefnd munu ekki gefa kost á viðtölum við fjölmiðla um það sem fram kemur í álitinu.

mbl.is