Forsetinn beiti synjunarvaldi gegn orkupakka

Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og einn stofnenda Orkunnar okkar, …
Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og einn stofnenda Orkunnar okkar, félagasamtaka sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðurnarrétt Íslands í orkumálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verði þingsályktunartillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um þriðja orkupakka ESB samþykkt á Alþingi og hljóti frekara brautargengi á þinginu munu félagasamtökin Orkan okkar skoða þann möguleika að safna undirskriftum og skora á forseta Íslands að beita synjunarvaldi gegn þeim frumvörpum sem tengjast orkupakkanum.

Þetta segir Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og einn stofnenda Orkunnar okkar, félagasamtaka sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum.

Yfir 2.000 manns tekið undir áskorun á þingmenn að hafna orkupakkanum

Utanríkisráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um þriðja orkupakka ESB síðdegis í gær. Orkan okkar sendi alþingismönnum áskorun í byrjun vikunnar þar sem þeir eru hvattir til að hafna þriðja orkupakkanum. Yfir 2.000 manns hafa tekið undir áskorunina á heimasíðu samtakanna. „Við skorum á þingmenn að hafna pakkanum og fá undanþágu, um það erum við sammála,“ segir Frosti í samtali við mbl.is.

Frosti segir að ef orkupakkinn verði samþykktur í þeirri mynd sem utanríkisráðherra leggur til muni það setja EES-samninginn í uppnám. „Þá kemur upp lagaleg óvissa og það verður ókyrrð í samfélaginu. Ég hugsa að þá verði til eitthvert samfélagsafl sem mun berjast gegn EES-samningnum.“

Ef þriðji orkupakkinn verður samþykktur í núverandi mynd kemur til greina að samtökin hefji undirskriftasöfnun og skora á forsetann að beita synjunarvaldi sínu, það er gegn þeim frumvörpum sem verða lögð fram í kjölfar þingsályktunartillögunar, til að mynda frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, um breyt­ing­ar á raf­orku­lög­um

„Við erum ekki búin að taka þá ákvörðun en mér heyrist að það verði líklegt. Við vonum að þingið geri breytingu á málinu,“ segir Frosti. Þá munu samtökin einnig senda inn umsagnir til utanríkismálanefndar og freista þess að fá fundi með nefndinni. „Við viljum fá málið í betri farveg, að það verði sent aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar og að við fáum fyrirvara sem halda samkvæmt EES-samningnum,“ segir Frosti.

Orkupakkinn ekki minna mál en Icesave

Frosti segir þriðja orkupakkann ekki vera minna mál en Icesave-málið var á sínum tíma, en Frosti var einn af forsvarsmönnum Advice-hópsins svokallaða, sem barðist fyrir því að þjóðin felldi Icesave í atkvæðagreiðslu. „Icesave-málið fjallaði um hundruð milljarða, bara sæstrengurinn kostar hundruð milljarða.“  

Þá segir hann umræðuna síðustu daga og vikur minna um margt á baráttuna í Icesave-málinu. „Líkt og þá hefur mikill meirihluti þjóðarinnar áhyggjur af löggjöfinni, skoðanakannanir sýna það. Þetta er áhyggjuefni og þegar svona gerist, eins og í Icesave-málinu, spretta upp eins máls hópar sem reyna að vekja athygli stjórnmálamanna með öllum ráðum. Ef það dugar ekki verðum við að skora á forsetann, vegna þess að það gengur ekki að kjörnir fulltrúar fari gegn ályktunum sem gerðar hafa verið í grasrótum þessara flokka.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert