Fengu 3.830 evrur á sjö klukkustundum

Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun í Hafnarfirði. Ljósmynd/Valitor

„Við mat á fjárhæð tjóns stefnenda lítur dómurinn til þess hve lengi lokun stefnda varði, 671 dag, og til þess hve mikill fjöldi greiðslna barst í gegnum greiðslugátt stefnda þann stutta tíma sem hún var opin og hve háar fjárhæðirnar voru að meðaltali.“

Þetta segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Suns­hine Press Productions (SSP) og Datacell gegn Valitor sem féll á dögunum þar sem Valitor var gert að greiða félögunum tveimur samtals 1,2 milljarða króna, þar af SSP 1,14 milljarða króna og Datacell 60 milljónir króna, auk málskostnaðar upp á tæplega 20 milljónir króna.

Hæstiréttur hafði áður dæmt Valitor brotlegt gegn félögunum tveimur fyrir að hafa lokað á greiðslugátt sem Datacell kom upp að beiðni SSP til þess að taka á móti fjárframlögum til uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks en gáttin var aðeins opin í nokkrar klukkustundir áður en Valitor tók ákvörðun um að loka henni vegna tengslanna við Wikileaks.

Valitor hélt því fram fyrir dómi að tjón SSP og Datacells gæti aldrei numið hærri fjárhæð en töpuðum tekjum í tvo mánuði þar sem félaginu hafi verið heimilt að segja upp samningi við Datacell með tveggja mánaða fyrirvara. Héraðsdómur benti hins vegar á að þeirri niðurstöðu að sú málsástæða væri of seint komin fram þar sem Valitor hefði aðeins hreyft henni við munnlegan flutning en lögum samkvæmt ættu málsástæður að koma fram svo fljótt sem tilefni væri til. Fyrir vikið yrði hún ekki tekin til frekari skoðunar.

Kröfur byggðar á skýrslu sem var einhliða aflað

Héraðsdómur hafnaði aðalkröfu SSP og Datacell upp á tæpa 7,7 milljarða króna og 405 milljónir króna sem og þrautavarakröfu upp á tæplega 1,3 milljarða króna og tæpar 67 milljónir króna á þeim forsendum að kröfurnar væru reistar á útreikningum í skýrslu fyrirtækisins Veritas ráðgjafar slf. sem unnin var fyrir SSP og Datacell.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að skýrslunnar hafi verið einhliða aflað af SSP og Datacells og án þess að Valitor gæfist kostur á að gæta hagsmuna sinna og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við gerð hennar. Fyrir vikið yrði skýrslan ekki talin hafa þýðingu við úrlausn málsins og yrði af þeim ástæðum að sýkna Valitor af aðalkröfu félaganna tveggja. Með sömu rökum væri þrautavarakröfu félaganna hafnað.

Varakröfu félaganna tveggja, sem hljóðaði upp á tæplega 3,5 milljarða króna annars vegar og rúmar 183 milljónir króna hins vegar, var einnig hafnað á þeim forsendum að hún væri byggð á mati dómkvaddra matsmanna sem byggði á veikum grunni. Fyrir vikið komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að byggja dóminn á þrautaþrautavarakröfu sem fól í sér að bætur yrði ákveðnar að álitum. Það er að mati dómstólsins.

Héraðsdómur vísar til þess að greiðslugáttin hafi verið opin í liðlega 7 klukkustundir og á þeim tíma hafi borist 99 styrktarframlög með greiðslukortum að heildarfjárhæð 3.830 evrur sem svari til um það bil 12.560 evra á sólarhring. Jafnvel gögn um raunverulega tekjuöflun félaganna tveggja varði stutt tímabil veiti þau óyggjandi vísbendingu um að framlög hefðu haldið áfram að berast ef gáttinni hefði ekki verið lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert