Bíða enn fregna af sýnatöku í skólanum

Skólastjórnendur Ártúnsskóla er farið að lengja eftir niðurstöðum sýnatöku sem …
Skólastjórnendur Ártúnsskóla er farið að lengja eftir niðurstöðum sýnatöku sem gerðar voru í byrjun síðasta mánaðar. Ljósmynd/Aðsend

Engin mygla reyndist vera samfara erfiðum raka sem kom upp í Hlíðaskóla, segir verkefnastjóri í skólanum. Skólastjórnendur í Ártúnsskóla bíða hins vegar enn frétta af sýnum sem tekin voru úr skólanum í síðasta mánuði.  

Foss­vogs­skóla var lokað í síðasta mánuði vegna myglu og raka­skemmda og kennsla flutt yfir í Laug­ar­dal út skóla­árið og þá var einni álmu Breiðholtsskóla lokað nú í vetur vegna myglu. Helgi Gríms­son, sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar, sagði þá í samtali við mbl.is að fara eigi í heildarúttekt á skólahúsnæði borgarinnar.

Fram hefur komið að til skoðunar sé einnig hvort lekavandamál í fleiri skólum hafi leitt til myglu og hafa Ártúnsskóli, Seljaskóli, Hlíðaskóli og Hagaskóli verið nefnd í því sambandi.

Að sögn Önnu Ingibjargar Flosadóttur, verkefnastjóra í Hlíðaskóla, fannst engin mygla er leki kom upp í tveimur stofum í skólanum. „Það var skoðað um leið, en það fannst engin mygla,“ segir hún. Engu að síður hafi verið um erfiðan leka að ræða sem kom í gegnum útvegg. „Það er verið að gera við skólann bæði að utan og innan vegna þessa og til að fyrirbyggja myglu.“

Skólayfirvöld í Ártúnsskóla hafa engar fréttir enn fengið af sýnum sem tekin voru á fjór­um stöðum í skólanum í byrjun marsmánaðar vegna gruns um myglu. Þak skól­ans lek­ur og einnig hef­ur verið leka­vanda­mál meðfram glugg­um á gler­vegg.

Rann­veig Andrés­dótt­ir, skóla­stjóri Ártúns­skóla, segir samtali við mbl.is að fleiri sýni hafi verið tekin í skólanum í þessum mánuði en að stjórnendur skólans hafi enn ekki fengið neinar niðurstöður. „Það verður að segjast að við erum orðin svolítið óþolinmóð,“ segir hún og kveðst ýta reglulega eftir svörum.

Engin úttekt enn gerð á Seljaskóla

Ekki hefur enn verið gerð úttekt á Seljaskóla að sögn skólastjórans Magnúsar Þórs Jónssonar, en vitað er um raka í skólanum. „Það er ekki komin skoðun,“ segir hann. „Síðustu svör sem við fengum var að þetta væri inni í þessari lúpu.“ Málið sé alfarið á borði umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. 

Áður hefur verið greint hefur verið frá því að framkvæmdir í Fossvogsskóla gangi vel og að sögn Ástu Bjarney Elías­dótt­ir, skóla­stjóra Breiðholts­skóla, eru framkvæmdir þar á áætlun. Einni álmu með átta kennslu­stof­um var lokað fyrr á þessu ári og er reiknað með að fram­kvæmd­um ljúki í haust um leið og skólastarf hefst að nýju.  

Áætlað er að framkvæmdum ljúki við Breiðholtsskóla í haust.
Áætlað er að framkvæmdum ljúki við Breiðholtsskóla í haust. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert